spot_img
HomeFréttirOktóber kraftröðun Karfan.is - 1. deild karla

Október kraftröðun Karfan.is – 1. deild karla

 

Mánaðarlega mun Karfan birta kraftröðun í vetur. Þar er ekki aðeins tekin til staða liðanna í deildinni, heldur einnig breytingar á leikmannahópum og það gengi, eða sú sveifla sem liðið er í á hverri stundu.

 

Nú skal 1. deild karla skoðuð. Það sem horft er til í þessari fyrstu útgáfu er breyting á leikmannahópum liðanna, en ekki er tekið sérstakt tillit til æfingaleikja sem liðin hafa spilað í þetta skiptið, nema að litlu leyti. Tekið skal fram að við höfum haft rangt fyrir okkur áður og öllum liðum er frjálst að standa sig betur eða verr en við höldum og troða þar með sokki upp í okkur.

 

Örvarnar munu á næsta lista merkja færslu liða á milli mánaða, en þar sem þetta er fyrsti sinnar tegundar, þá eru þær miðaðar við endanlega stöðu liðs í deildinni á síðasta tímabili.

 

#1: Breiðablik

 

 

Blikar rétt misstu af sæti í úrvalsdeild karla á seinasta tímabili eftir æsispennandi undanúrslitarimmu við Valsmenn. Núna eru Kópavogsdrengirnir búnir að bæta helling við sig og líta ansi vel út fyrir komandi tímabil. Jeremy Smith, erlendur leikmaður Breiðabliks, var MVP í næst efstu deild Ástralíu í fyrra og Árni Elmar, sem var lykilmaður hjá Snæfell í fyrra, mun koma til með að styrkja liðið mikið.

 

Komnir

Árni Elmar Hrafnsson frá Snæfell

Sæmundur Valdimarsson frá Stjörnunni

Hilmar Geirsson frá Stjörnunni

Hafþór Sigurðarson frá Northwood High School (USA)

Jeremy Smith frá Ástralíu (upphaflega USA)

 

Farnir

Egill Vignisson erlendis í nám

Birkir Víðisson erlendis í nám
Bjarni Geir Gunnarsson til Stjörnunnar

Tyrone Garland til USA

 

#2: Skallagrímur

 

 

Skallagrímsmenn áttu flott tímabil í fyrra í Domino‘s deild karla en allt kom fyrir ekki og þeir féllu aftur niður í 1. deildina eftir að hafa átt góða leiki gegn bestu liðum landsins. Þeir hafa misst fjóra byrjunarliðsmenn sína og það er ólíklegt að einn reynslumesti leikmaður liðsins geti skilað 35 mínútum í leik að þessu sinni. Þrátt fyrir það eru þeir eftir sem áður lið sem spilaði í efstu deild í fyrra og leikmennirnir sem enn eru innanborðs eru flestir af úrvalsdeildarkaliber.

 

Komnir

Zac Carter frá USA
Þorgeir Þorsteinsson frá ÍR

 

Farnir

Sigtryggur Arnar Björnsson til Tindastóls

Flenard Whitfield til Finnlands

Davíð Ásgeirsson í pásu

Magnús Þór Gunnarsson hættur

 

 

#3: FSu

 

FSu átti ekki gott tímabil á seinasta ári og hafa misst nokkra mínútuháa leikmenn sína. Sem betur fer hafa þeir líka bætt mönnum við sig, Maciek Klimaszewski er snúinn aftur frá Hólminum og Florijan Jovanov ákvað að spila með FSu fyrst að Hrunamenn/Laugdælir drógu sig úr keppni. Þeir gætu gert gott mót ef allir mæta í formi og vel stemmdir. Kemur í ljós.

 

Komnir
Jett Speelman frá USA
Maciek Klimaszewski frá Snæfell
Florijan Jovanov frá Laugdælum
Sigurjón Unnar Ívarsson frá Haukum

Farnir
Terrence Motley til Mexíkó
Helgi Jónsson til Þórs Þorlákshafnar
Sigurður Jónsson til Þórs Þorlákshafnar
Orri Jónsson hættur
Arnþór Tryggvason hættur

 

#4: Vestri

 

 

 

Nú þegar Vestri hefur tvö ígildi erlendra leikmanna í Nebosha og Nemanja Knezevic (ekki skyldir, Nebo er Serbi og Nem er Svartfellingur) ásamt því að fá meira út úr ungu leikmönnunum sínum þá gætu lærisveinar Yngva Páls átt gott tímabil í vændum. Það verður samt hellingur að smella saman. Þeir hafa það með sér að menn víla enn fyrir sér að keyra á Ísafjörð

 

Komnir

Nemanja Knezevic frá Svartfjallalandi

Ingimar Aron Baldursson frá Val

Björn Ásgeirsson frá Hamri

 

Farnir

Hinrik Guðbjartsson til Grindavíkur

Björgvin Snævar Sigurðsson til Ármanns

Pance Ilievski hættur

Daníel Þór Midgley

 

#5: Snæfell

 

 

Hólmarar unnu ekki leik í efstu deild karla seinast og eru því komnir niður í næst efstu deildina í fyrsta sinn í 15 ár (voru seinast . Christian Covile verður áfram með þeim og Viktor Marínó Alexandersson er núna kominn með góða reynslu af því að spila í efstu deild karla. Þessir og ungir leikmenn Snæfells ásamt reynslubolta eins og Sveinn Arnar Davíðsson innanborðs eru vísir til alls.

 

Komnir

Nökkvi Már Nökkvason frá Grindavík

Elías Björn Björnsson frá Skallagrím

Einar Ólafsson frá Val

 

Farnir

Andrée Fares Michelsson til Hattar

Maciek Klimaszewski til Fsu

Árni Elmar Hrafnsson til Breiðabliks

Snjólfur Björnsson í Val

 

 

#6: Fjölnir

 

 

Fjölnismenn enduðu í öðru sæti í 1. deildinni í fyrra en töpuðu í undanúrslitarimmunni gegn Pétri Ingvarssyni og Hamarsmönnum. Þeir hafa fengið helling af nýju blóði inn í liðið og með Fal við stjórnborðið gætu þeir verið fljótir að klóra sig upp þennan lista.

 

Komnir

Tony Freeland frá USA
Sigvaldi Eggertsson á venslasamningi frá KR

Sigmar Logi Björnsson frá Ármanni

Jón Rúnar Baldvinsson frá Ármanni

Daníel Freyr Friðriksson frá Ármanni

Andri Jökulsson frá ÍA

 

Farnir

Róbert Sigurðsson til Stjörnunnar

Colin Anthony Pryor til Stjörnunnar

Bergþór Ægir Ríkharðsson til Hattar

Hreiðar Már Vilhjálmsson til Þórs Akureyrar

Garðar Sveinbjörnsson

Sindri Már Kárason

Egill Egilsson

 

#7: ÍA

 

 

Derek Shouse hefur nú þegar skilað sér aftur á klakann og þrátt fyrir að þeir hafi ekki verið mjög sannfærandi á seinasta ári þá eru þeir með reynslumikla leikmenn og Shouse þarf varla tíma til að aðlagast einu né neinu fyrst að þetta er annað árið hans hérna á Íslandi. Reynslan gæti ráðið miklu um gengi liðsins, en með menn eins og Jón Orra, Fannar Helga, Áskel og Björn Steinar líklega þá geta þeir alveg unnið leiki.

 

Komnir

Jóhannes Valur Hafsteinsson frá Skallagrími
Pálmi Snær Hlynsson frá Hrunamönnum
Jón Frímannsson

 

Farnir

Birkir Guðjónsson hættur

 

#8: Hamar

 

 

Hamarsmenn komu seinastir inn í úrslitakeppni fyrstu deildar í fyrra gegnum 5. sætið en enduðu á að fara með Val í oddaleik um sæti í úrvalsdeildinni. Þó að þeir hafi tapað þeim leik stórt sýndu þeir að þeir eru nógu góðir til að vinna hvaða lið sem er í næst efstu deild. Vandinn er að nú hafa þeir misst töluvert af leikmönnum og mikil endurnýjun hefur átt sér stað. Í bili eiga þeir 8. sætið, en gætu strítt hvaða liði sem er.

 

Komnir

Julian Nelson frá USA
Michael Orris frá USA

Arnór Ingi Ingvason frá Keflavík
Þorgeir Freyr Gíslason frá Fjölni

 

Farnir

Hilmar Pétursson til Keflavíkur
Björn Ásgeir Ásgeirsson til Vestra

Erlendur Stefánsson til Þórs Þorlákshafnar
Christopher Woods til USA
Rúnar Ingi Erlingsson hættur

Örn Sigurðsson hættur

Snorri Þorvaldsson hættur

 

#9: Gnúpverjar

 

 

Þrátt fyrir að hafa átt ævintýralega uppgöngu undanfarin ár höldum við að hér verði staðar numið. Gnúpverjar munu vinna einhverja leiki, en þeir eru að spila í deild með nóg af góðum liðum sem eru flest í toppformi. Það er undir þeim komið að klífa metorðastigann.

 

Komnir

Everage Richardson frá Lúxemborg

Hörður Helgi Hreiðarsson frá Vestra

Heimir Snær Heimisson frá Þór Þorlákshöfn

Þorsteinn Gunnlaugsson frá Fjölni

Garðar Pálmi Bjarnason frá Breiðablik

Hörður Jóhannsson frá FSu

Farnir

Engir

Fréttir
- Auglýsing -