Á heimasíðu Þórs á Akureyri er greint frá því í dag að þeim hafi borist mikill liðsstyrkur. Óðinn Ásgeirsson hefur dregið fram skóna og leika með liðinu í vetur.
Óðinn er af reyndari leikmönnum Þórsara, 30 ára gamall og hóf ungur að leika með meistaraflokki. Þá lék hann um tíma með KR og í Noregi með Ulriken Eagles og einnig var hann viðloðandi A landslið karla.
Á heimasíðu Þórs segir Böðvar Kristjánsson þjálfari liðsins „Óðinn er gríðarlega sterkur leikmaður og koma hans í liðið á ný mun hjálpa okkur í baráttunni. Við vissum í upphafi tímabils að veturinn yrði brekka hjá okkur og það er ljóst að Óðinn mun klárlega létta undir með okkur í þeirri vegferð sem liðið er í. Hann mun án efa hjálpa strákunum innan vallar í að verða betri leikmenn. Óðinn mun þó ekki leika með liðinu á morgun gegn Skallagrími en hann verður klár í næsta leik á eftir".
Þórsarar hafa byrjað veturinn illa og eftir 6 leiki hafa þeir aðeins unnið 1.
Mynd: www.thorsport.is