spot_img
HomeNeðri deildir1. deild kvennaOddaleikur um Subway sæti eftir öruggan sigur ÍR

Oddaleikur um Subway sæti eftir öruggan sigur ÍR

Í kvöld mættust ÍR og Ármann í úrslitum 1.deildar kvenna en staðan í seríunni var 2-1 fyrir Ármann en vinna þarf þrjá leiki til að öðlast hið eftirsótta sæti í Subwaydeild kvenna. Til að gera langa sögu stutta þá var þessi leikur frábær skemmtun og í raun hefur þessi sería verið skemmtilegri að horfa á en undanúrslit í Subwaydeild kvenna. Leikirnir hafa einkennst af mikilli ástríðu, baráttu og frábærri stemningu í stúkunni.

Fyrsti leikhluti lofaði mjög góðu þar sem liðin skiptust á að skora en ÍR átti seinustu körfu leikhlutans og leiddi því 20-18 fyrir annan leikhluta. Í öðrum leikhluta tókst ÍR hægt og rólega að síga fram úr og með frábærri baráttu náði Rebekka Rut Hjálmarsdóttir sóknarfrákasti í lok leikhlutans og skoraði rétt áður en tíminn rann út og leiddi ÍR með 12 stigum í hálfleik, 43-31.

Í lok fyrri hálfleiks meiddist Telma Lind Bjarkadóttir og kom hún ekki meira við sögu í leiknum og munaði um minna fyrir Ármann. Í lið Ármanns í dag vantaði einnig Kristínu Öldu Jörgensdóttur sem hefur byrjað alla leiki liðsins í vetur en hún var frá vegna veikinda. ÍR hefur einnig átt í meiðslum en í dag mætti Irena Sól Jónsdóttir aftur á parketið hjá ÍR eftir að hafa verið meidd nánast alla úrslitakeppnina en ÍR vantar enn þá Sólrúnu Sæmundsdóttur sem meiddist í fyrsta leik þessara liða. Bæði lið hafa því verið að glíma við meiðsli og veikindi og spila því á mjög fáum leikmönnum. Það er því ekki í boði fyrir lykilmenn að hitta á slæman dag eða lenda í villuvandræðum.

ÍR liðið mætti töluvert betur stemmt til leiks í seinni hálfleik og þrátt fyrir að bæði lið væru að berjast af miklum krafti þá var ÍR að spila betri körfubolta samhliða baráttunni og fljótt í 3. leikhluta var ljóst að ÍR myndi sigra og fram undan yrði oddaleikur í Kennaraháskólanum.

Hjá ÍR var þetta mikill liðssigur þar sem allir leikmenn voru að spila hörkuvörn og með mikla baráttu. Fremst meðal jafningja var bakvarðarparið Edda Karlsdóttir og Shanna Dacanay, Edda var með 21 stig, 4 stoðsendingar og 4 fráköst og Shanna var með 18 stig, 3 stoðsendingar og 3 fráköst. Erlendi leikmaður ÍR, Gladiana Aidaly Jimenez, átti einnig góðan leik með 21 stig og 4 fráköst.

Hjá Ármann var erlendi leikmaður liðsins, Schekinah Sandja Bimpa,  langbesti leikmaður liðsins með 33 stig, 11 fráköst og 12 fiskaðar villur en hana vantaði sárlega meira framlag frá öðrum leikmönnum liðsins. Jónína Karlsdóttir var  henni næst með 7 stig, 5 stoðsendingar og 10 fráköst

Samkvæmt KKÍ mun oddaleikur liðanna fara fram á páskadag kl.16:00 og verður gaman fyrir Ármann að finna sjálfboðaliða til að manna leikinn þann dag. Körfuboltaáhugafólk ætti að fjölmenna á staðinn enda tilvalið að skella sér á oddaleik um sæti í Subwaydeildinni eftir páskaeggjaát og áður en páskahátíðarkvöldmatur er lagður á borð. Ég vil einnig skora á Stöð 2 Sport að sýna beint frá þessum leik enda hafa leikir þessara liða verið frábær skemmtun.

Tölfræði leiks

Umfjöllun, viðtöl / Bryndís Gunnlaugsdóttir

Fréttir
- Auglýsing -