spot_img
HomeFréttir,,Nýliðarnir“ halda áfram að losa sig við titilinn

,,Nýliðarnir“ halda áfram að losa sig við titilinn

Haukar hafa verið sviptir titlinum ,,nýliðar“ í umræðunni nú í byrjun móts og hafa nokkurn veginn kvittað undir það með 4-3 byrjun. Ekki slæmt hjá ,,nýliðum“, ekki síst í ljósi þess að Darwin Davis hefur aðeins tekið þátt í 3 leikjum liðsins hingað til. Hafnfirðingar hafa reyndar tapað 3 af síðustu 4 leikjum sínum og ærið verkefni fyrir höndum í kvöld gegn gestunum af Króknum. 

Norðanmenn koma úr allt annarri átt eins og allir þekkja en státa þó af sama sigurhlutfalli, 4-3. Ekkert hefur vantað upp á skörðin í Tindastóli í byrjun móts og má vel gera því skóna að hlutfallið væri annað og betra ef svo hefði ekki verið um hnútana búið. Stólarnir voru fullmannaðir í síðasta leik og ef sá leikur segir eitthvað um getu liðsins eiga þeir að vinna í kvöld…eða hvað Kúla góð?

Kúlan: ,,Þetta verður svaðalegur leikur! Breidd gestanna kemur þeim yfir línuna í lokin, lokatölur 91-95!“.

Byrjunarlið

Haukar: Hilmar, Orri, Davis, Mortensen, Giga

Tindastóll: Pétur, Arnar, Zoran, Axel, Siggi

Gangur leiksins

Fréttir bárust af því fyrir leik að Keyshawn Woods ætti við magakveisu að stríða og var ekki með en ekki bar mikið á því skarði í upphafi leiks. Jafnt var á öllum tölum og staðan 19-21 að fyrsta leikhluta loknum. Arnar setti 8 stig í leikhlutanum en Davis og Giga 5 hvor fyrir heimamenn.

Eftir rúmlega mínútu leik í öðrum leikhluta og 2 stig frá gestunum tók Maté ,,Nostradamus-leikhlé“ enda lítið búið að gerast síðan í leikhlutaskiptum. Maté sá vafalaust einhver dökk teikn á lofti sem raungerðust þrátt fyrir leikhléið enda þó margir hafi reynt hefur fáum tekist að stýra örlögunum. Teiknin líkömnuðust e.t.v. í Drungilas sem var inn á vellinum þessar mínúturnar og virtist hafa villst inn á minniboltaæfingu. Þegar 6:24 voru enn til leikhlés var staðan orðin 19-32 og Maté tók aftur leikhlé…sennilega til að endurtaka sig. Það hafði lítil áhrif og Stólarnir komu sér í 30-48 stöðu þegar einhver sekúndubrot voru til hlés. Hilmar Smári færði sínum mönnum þó eitthvað jákvætt til að taka með til búningsherbergja með körfu góðri og setti vítið, staðan 33-48 í hálfleik.

Undirritaður verður að viðurkenna að hann sá ekki mikla glætu í þessu fyrir nýliðana og Drungilas opnaði þriðja leikhluta með þristi. Vörn Stólanna var fín í byrjun leikhlutans en sama má segja um vörn heimamanna sem hélt gestunum frá því að ganga frá leiknum. Þegar 3:40 voru eftir af leikhlutanum höfðu norðanmenn enn nokkuð þægilegan 16 stiga púða, 41-57, en þá kviknaði loksins á Dananum snjalla, Mortensen, sem hafði lítt sést fram að þessu. Giga gerði sig einnig gildandi undir körfunni, ekki síst þegar Drungilas sat á bekknum. Leikar stóðu 55-65 fyrir lokafjórðunginn, heimamenn búnir að berja sig nær!

Maté talaðu um það í viðtali eftir leik að lið þurfa að ná einhverju mómenti og ekki er nóg að berjast og verjast, það þarf líka að skora! Og það gerðu Haukar í byrjun fjórða leikhluta, minnkuðu muninn í 62-66, tæpar 8 mínútur eftir og Stólarnir tóku leikhlé. Skömmu síðar fékk Pétur Rúnar sína fimmtu villu fyrir mótmæli (sennilega hafði Pétur mikið til síns máls en dveljum ekki við það) og mómentið svo sannarlega með heimamönnum. Eftir mikinn barning og baráttu á báða bóga komust Haukar yfir þegar 3:14 voru eftir af leiknum 72-71 – í fyrsta sinn síðan í stöðunni 6-4! Eitthvað er Davis svo farinn að átta sig á hlutverki sínu í Haukaliðinu því hann kláraði leikinn í framhaldinu, setti þrist upp úr engu í næstu sókn og Haukar tveimur körfum yfir, 75-71, en þó góðar 2 mínútur enn eftir. Vörnin hélt vel hjá heimamönnum og Davis setti mikilvægustu körfu leiksins með geggjuðu gegnumbroti þegar tæp mínúta var eftir og setti stöðuna í 77-73. Þriggja stiga skot Arnars geigaði í framhaldinu og gestirnir höfðu ekki tíma til að rétta sinn hlut. Frábær 80-75 heimasigur staðreynd!

Menn leiksins

Davis gerði það sem bandarískir leikmenn ,,eiga“ að gera – að klára leiki! Hann endaði með 21 stig og 3 stoðsendingar sem er kannski ekkert yfirgengilegt en hann setti heldur betur mikilvægustu körfur leiksins. Giga setti 20 stig og tók 12 fráköst og var betri eftir því sem á leið leikinn.

Badmus var atkvæðamestur gestanna með 21 stig og 7 fráköst.

Kjarninn

Ef það er eitthvað sem er nýliðalegt við Hauka þá er það kannski helst andinn sem er yfir liðinu. Leikmenn liðsins spila eins og þeir hafi ekki neinu að tapa, rétt eins og nýliðar, berjast eins og ljón og búast ekki við að fá neitt af himnum ofan að gjöf. Haukar eru svolítið þunnskipaðir og þola e.t.v. ekki mjög mikil skakkaföll en hafa þó halað inn stigum án Davis svo það verður spennandi að sjá hversu langt Maté fer með þetta lið í vetur.

Stólarnir virtust vera númeri stærri en heimamenn allan fyrri hálfleikinn og tilfinningin var sú að forystan hefði getað verið 20+ í hálfleik. Smátt og smátt molnaði svo undan liðinu og auðvitað skiptir það einhverju máli að kraftar Woods buðust ekki í þessum leik. Stólarnir létu dómgæsluna fara of mikið í taugarnar á sér en undirritaður ætlar að leyfa sér að bera aðeins í bætiflákann fyrir norðanmenn hvað það varðar, dómararnir áttu ekki góðan leik í kvöld. Hvað sem því líður eru Króksarar enn með frábært lið, það hefur ekki breyst og ekki ástæða til að hafa neinar áhyggjur þó svona hafi farið að þessu sinni.

Fréttir
- Auglýsing -