Hamar og Breiðablik áttust við í íþróttahúsinu í Hveragerði í kvöld þar sem bæði lið þurftu nauðsynlega á sigri að halda. Fyrir leikinn voru bæði lið án sigra og því um algjöran botnslag að ræða, liðunum var spáð neðstu sætum deildarinar og því um fjögurra stiga leik að ræða.
Það voru Blikar sem tóku öll völd á vellinum strax í upphafi. Þær voru að hitta vel á móti svæðisvörn Hamars og náðu strax góðu forskoti, 0-12 og 4-16. Hamarsstúlkur fóru að nýta skóknirnar betur, en án árangurs í vörninni og því var forskotið áfram í vil Blika, staðan 11-21 eftir fyrsta fjórðunginn. Í öðrum leikhluta fóru þó hlutirnir að gerast hjá Hamri og söxuðu þær á forskotið jafnt og þétt, og var munurinn einungis eitt stig þegar flautað var til loka hálfleiks 35-36.
Síðari hálfleikur þróaðist þó líkt og leikurinn hófst þar sem Blikastelpur voru einfaldlega grimmari og sýndu meiri baráttu og náðu þær aftur góðri forystu 48-59.
Síðasti fjórðungurinn náði síðan aldrei að verða spennandi þar sem að Blikarnir sigldu tveimur öruggum stigum í Kópavoginn með 20 stiga mun 57-77 og þar með sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Atkvæðamest hjá gestunum var Wideman með 17 stig 13 fráköst og 11 stoðsendingar og á eftir henni var Jóhanna Björk með 17 stig 11 fráköst og 6 stoðsendingar, hjá Hamri var Rendon með 14 stig og 10 fráköst.
Umfjöllun/ ÍÖG
Mynd með frétt / Kristrún Rut Antonsdóttir sækir að Blikavörninni í Frystikistunni í kvöld.