17:42
{mosimage}
(Blikar hafa það eitt að markmiði að halda sæti sínu í deildinni þessa leiktíðina)
Nýliðarnir í Iceland Express deild karla fara vel af stað þetta tímabilið og hafa þegar landað mikilvægum stigum í baráttunni fyrir tilverurétti sínum í efstu deild. Síðan íslenska úrvalsdeildin í karlaflokki hóf að bera nafnið Iceland Express deildin hafa liðin verið að falla með 6-10 stig í sarpinum. Nýliðar Breiðabliks eru þegar komnir með 6 stig og þá hefur FSu, sem leikur í fyrsta sinn í efstu deild, nælt sér í 4 stig. Þó Grindavík og KR skipi nú tvö efstu sæti deildarinnar með nokkrum yfirburðum er keppnin mjög hörð neðan við toppinn.
Leiktímabilið 2005-2006 var fyrst keppt í Iceland Express deildinni og þá féllu Höttur frá Egilsstöðum og Þór Akureyri. Höttur féll með 6 stig og Þórsarar féllu með 10 stig. Næstu leiktíð á eftir (2006-2007) féllu Haukar með 8 stig og Þór Þorlákshöfn með 10 stig. Í fyrra féllu svo Hamar og Fjölnir bæði með 8 stig. Sé á einhvern hátt hægt að taka mið af síðustu þremur leiktíðum eru Breiðablik og FSu ekki langt frá því að nánast tryggja sæti sín í deildinni.
FSu er núna í 10. sæti deildarinnar með 4 stig eftir sex umferðir og Breiðablik er í 8. sæti og því síðasta inn í úrslitakeppnina með 6 stig. Nýliðarnir hafa enn ekki mæst í deildinni en þeirra fyrsta viðureign verður næstkomandi fimmtudag í sjöundu umferð þegar Blikar heimsækja FSu í Iðu á Selfossi.
Skallagrímsmenn eru enn án stiga í deildinni og bendir allt til þess að þeir leiki í 1. deild á næstu leiktíð. Vafalítið myndu margir Borgnesingar andmæla hér þar sem Igor Beljanski samdi við liðið um helgina og von er á öðrum erlendum leikmanni í gegnum safnanir sem stuðningsaðilar liðsins hafa staðið fyrir. Spurning hvort þess glæsilega samstaða og samhugur í Borgarnesi geti bjargað þeim frá falli. Það skyldi enginn afskrifa ÍR um þessar mundir enda fengu þeir sinn fyrsta sigur gegn Tindastól í síðustu umferð þar sem Hreggviður Magnússon lék sinn fyrsta leik en þessi landsliðsmaður er vel fær um að klára leiki upp á sitt einsdæmi.
Að þessu sögðu er það ekki gefið að nýliðar FSu og Breiðabliks séu hólpnir þó vissulega séu komin gríðarlega mikilvæg stig í hús snemma á tímabilinu. Harkan um hvert stig í deildinni frá sætum 3-11 hefur verið mikil undanfarið og óhætt að segja að deildin hafi farið vel af stað þrátt fyrir þau miklu áföll sem flest liðin urðu fyrir skömmu fyrir mót.
Í stað erlendu leikmannanna hafa ungir leikmenn fengið að stíga upp og spreyta sig hjá sínum félögum sem er mjög mikilvægt en eins og Pálmi Sævarsson annar tveggja þjálfara hjá Skallagrím kom inn á um daginn, þá hafa 15 ára strákar verið að leika suma leikina og á köflum hefur það reynst þeim fullmikið.
{mosimage}
(Sævar og félagar í FSu eru þegar komnir með 4 stig)
En ef við snúum okkur aftur að Breiðablik og FSu þá samkvæmt síðustu þremur leiktíðum eiga þessi lið ekki langt í land með að tryggja sæti sitt í deildinni. Nýliðarnir mætast í næstu umferð en fram að jólum eru deildarleikir liðanna eftirfarandi:
Breiðablik:
FSu – úti
Grindavík – heima
Stjarnan – úti
Njarðvík – heima
Tindastóll – úti
FSu:
Breiðablik – heima
Snæfell – úti
ÍR – heima
Grindavík – heima
Stjarnan – úti
Fyrir nýliðana eru því sín hvor 10 stigin í pottinum fram að áramótum og takist þeim að vinna tvo leiki af þessum fimm eru bæði FSu og Breiðablik á grænni grein fyrir síðari hluta mótsins. Ef við lítum svo á 1. deildina í ár hafa Hamar, Haukar og Valur farið vel af stað og ekki ólíklegt að þessi þrjú lið sláist um þau tvö lausu sæti sem eru í úrvalsdeild á næstu leiktíð.
Fyrir mót spáði Karfan.is FSu í 12. sæti deildarinnar og Skallagrím í 11. sætið og að þessi tvö lið myndu s.s. falla. Blikum var spáð 9. sæti og toppurinn leit nákvæmlega út eins og hann gerir í dag. KR í 1. sæti og Grindavík í 2. sæti. Nánast ómögulegt er að segja hvað verður í efnahagsástandinu en undirritaður hefur heyrt það í máli manna að þeim finnist það líklegra en ekki að flest liðin í deildinni muni bæta við sig erlendum leikmönnum síðar á tímabilinu. Hvað verður kemur þá bara í ljós!