spot_img
HomeFréttirNorski björninn lagður af velli með þolinmæðina að vopni

Norski björninn lagður af velli með þolinmæðina að vopni

 
18 ára karlalið Íslands er í fínni stöðu í augnablikinu eftir þolinmæðissigur á Norðmönnum 80-61 á Norðurlandamótinu í Svíþjóð. Norski björninn var með læti lengstum af leiknum en á lokasprettinum var það íslenska seiglan sem hafði betur. Matthías Orri Sigurðarson fór fyrir íslenska liðinu með 25 stig, 5 fráköst og 4 stoðsendingar og Ágúst Orrason átti stórleik á báðum endum vallarins með glæsilega baráttu og 17 stig.
Nú er að hefjast leikur Svía og Dana og kemur það í ljós með deginum hvernig málin standa upp á framhaldið, hverjir séu á leið í úrslit og hverjir séu á leið í bronsleikinn.
 
Norðmenn voru mun sprækari í upphafi leiks og komust í 0-8 áður en Valur Orri Valsson skellti niður þrist fyrir íslenska liðið eftir tæplega þriggja mínútna leik. Sóknarleikur okkar manna var andlaus og Norðmenn þurftu lítið að hafa fyrir hlutunum í vörninni fyrir vikið.
 
Sem fyrr var íslenska liðið mætt með svæðisvörn en hún var hriplek í upphafi og Norðmenn gerðu vel að setja góð stökkskot í teignum. Staðan 10-21 Norðmönnum í vil eftir afleitan upphafsleikhluta Íslands.
 
Líflegra var yfir okkar mönnum strax á fyrstu augnablikum annars leikhluta. Ágúst Orrason kom með góða baráttu inn í liðið, skoraði og fékk villu að auki og Ísland opnaði annan leikhluta 11-4.
 
Einar Árni setti upp 2-2-1 svæðispressu sem strax gaf vel og strákarnir héldu sig við þá vörn og féllu niður í svæðisvörnina fram að hálfleik. Norðmönnum gekk síður að leysa hana rétt eins og þeim tókst að finna góðar glufur í fyrsta leikhluta.
 
Þegar mínúta var til hálfleiks leiddu Norðmenn 32-37 en þá hrukku bláir í gang og lauk hálfleiknum með því að Martin Hermannsson komst inn í innkast Norðmanna undir þeirra körfu og jafnaði með sterku sniðskoti um leið og leiktíminn rann út og þeir íslensku fóru með það inn í hálfleik sem vantað hafði síðustu tuttugu mínútur, læti og hamagang!
 
Matthías Orri Sigurðarson var stigahæstur í leikhléi með 12 stig og 3 stoðsendingar, Martin Hermannsson var með 6 stig og Ágúst Orrason 5 en Ágúst og Þorsteinn Ragnarsson börðust vel í fyrri hálfleik og gáfu íslenska liðinu oft þann neista sem hafði vantað á löngum köflum.
 
Matthías Orri Sigurðarson barði íslenska liðið áfram með tveimur þristum strax á fyrstu andartökum síðari hálfleiks. Ísland komst í 47-40 og þristarnir loks farnir að detta eftir 1/16 nýtingu í fyrri hálfleik!
 
Valur Orri fylgdi í kjölfarið með þrist og staðan 51-44 þegar Norðmenn fóru að bíta frá sér að nýju. Emil Karel Einarsson átti einnig fínar rispur í leikhlutanum og síðasta orðið átti Ágúst Orrason með erfiðu skoti í teig Norðmanna þegar 17 sekúndur lifðu leikhlutans og Ísland leiddi 58-53 fyrir fjórða og síðasta leikhluta.
 
Norðmenn jöfnuðu leikinn strax í fjórða leikhluta, 58-58. Ágúst Orrason tók sig þá til og barði íslenska liðið áfram, með fyrirmyndar baráttu á báðum endum vallarins fóru hjólin að snúast þökk sé Ágústi og kappinn skoraði eftir sóknarfrákast og fékk villu að auki og breytti stöðunni í 63-59. Eftir þetta var maskínan komin í gang, Ísland leit aldrei um öxl og hafði að lokum öruggan sigur 81-60.
 
Matthías Orri Sigurðarson gerði 25 stig, tók 5 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Ágúst Orrason bætti við 17 stigum og Valur Orri Valsson var með 12 stig og 6 fráköst. Þá var Martin Hermannsson með 8 stig en þeir Jens Valgeir Óskarsson og Snorri Hrafnkelsson komu sterkir af bekknum í síðari hálfleik í fjarveru Stefáns Karels Torfasonar sem fékk slæman skurð á fót og þurfti nokkur spor fyrir vikið eftir að kappinn kastaði sér út í aðstöðu fjölmiðlamanna á eftir boltanum, þeir eru harðir þarna fyrir norðan!
 
Neistinn: Ágúst Orrason barðist af miklum krafti í leiknum og færði liðinu allt það eldsneyti sem oft þurfti. Frábær leikur hjá Ágústi sem fór út með ruslið í dag, með bros á vör.
 
Fréttir
- Auglýsing -