spot_img
HomeFréttirNjarðvíkursigur í bragðdaufum leik

Njarðvíkursigur í bragðdaufum leik

 
Það er ósköp lítið hægt að segja um leik Fjölnis og Njarðvíkur í kvöld. Leikurinn var vægt til orða sagt leiðinlegur, hægur, lítið stigaskor og lítið sem ekkert sem gladdi augað. Þrátt fyrir að leikurinn hafi verið jafn allan tímann þá minnti leikurinn á leik tveggja liða í seinustu umferð tímabilsins og bæði lið fallinn og ekkert til að keppa að. Ægir Steinarsson átti góða spretti í Fjölnisliðinu en aðrir leikmenn í báðum liðum hafa oft átt betri leik.
Í lok 3ja leikhluta og upphafi 4ja leikhluta þá var eins og Njarðvíkingar hafi fundið smá neista til að klára leikinn. Á sama tíma var erlendi leikmaður Fjölnis, Christoper Smith hvíldur vegna villuvandræða og áttu Fjölnismenn í stökustu vandræðum með að stöðva Friðrik Stefánsson inn í teig á meðan. Innkoma Smith í fjórða leikhluta bætti Fjölnisliðið lítið. Heimamenn voru frosnir í 58 stigum meðan Njarðvíkurvélin mallaði í hægagangi.
 
Skástu tilþrif leiksins sáust í lokin. Fyrst blokkaði Smith skot Jóhanns Árna Ólafssonar og stuttu síðar hirti Ægir Steinarsson, einn af minnstu mönnum vallarins, frákast af Friðriki Stefánssyni. Það breytti engu. Þegnskyldu kvöldsins í Njarðvíkurhernum var lokið. Það má segja að Njarðvík hafi gert nákvæmlega það sem þurfti og ekki tommu meira til að vinna leikinn. Á meðan voru Fjölnismenn feimnir við að skjóta og mörg góð færi Fjölnismanna urðu að engu þegar leikmenn þorðu ekki að skjóta og ákváðu að drippla í vandræði í staðinn.
 
Leikmenn beggja liða virtust almennt áhugalausir, ef undan er skilinn Ægir Steinarsson hjá Fjölni sem var einn fárra leikmanna sem var tilbúinn til að leggja sig fram. Friðrik Stefánsson og Magnús Þór Gunnarsson drógu Njarðvíkurvagninn en það virtist fremur af skyldurækni en ánægju eða áhuga.
Stigahæstir í liði Njarðvíkur voru Magnús Þór Gunnarsson með 20 stig, Guðmundur Jónsson með 17 stig og 8 fráköst og Friðrik Stefánsson með 12 stig og 9 fráköst.
 
Hjá Fjölni var Christopher Smith með 23 stig og 17 fráköst, Ægir Steinarsson með 13 stig og Magni Hafsteinsson með 12 stig.
 
Texti: Bryndís Gunnlaugsdóttir
Mynd: Gunnar Gunnarsson
Fréttir
- Auglýsing -