22:28
{mosimage}
(Brenton héldu engin bönd í kvöld)
Brenton Birmingham stóð í ljósum logum í Ljónagryfjunni í kvöld og gerði 31 stig þegar Njarðvíkingar höfðu baráttusigur gegn ÍR í Iceland Express deild karla í körfuknattleik. Lokatölur leiksins voru 100-85 Njarðvíkingum í vil sem voru níu stigum undir þegar flautað var til hálfleiks. Njarðvíkingar verma nú toppsæti deildarinnar eftir sigur kvöldsins með KR en Vesturbæjarliðið hafði þriggja stiga sigur gegn Snæfellingum í Stykkishólmi 71-74.
Fannar Helgason opnaði leikinn með þriggja stiga körfu en leikurinn var hraður og skemmtilegur í upphafi. Hreggviður Magnússon reyndist Njarðvíkingum illviðráðanlegur í upphafi leiks sem og Eiríkur Önundarson en báðir gerðu þeir 7 stig í fyrsta leikhluta. Í stöðunni 14-18 fyrir ÍR tóku gestirnir enn betur á rás og breyttu stöðunni í 19-30 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Njarðvíkingar voru á hælunum bæði í vörn og sókn.
Annar leikhluti var einnig í eigu ÍR sem voru að spila fantagóða vörn. Steinar Arason átti sterka innkomu hjá ÍR og setti nokkrar þriggja stiga körfur beint í andlitið á Njarðvíkurvörninni. Á kafla virtist allt ganga upp hja ÍR á meðan hvorki rak né gekk hjá Íslandsmeisturunum. Gestirnir lentu í villuvandræðum undir lok annars leikhluta og var Eiríkur Önundarson kominn með 4 villur í hálfleik og Nate Brown þrjár. Staðan var 47-56 fyrir ÍR þegar hálfleiksflautan gall.
Jóhann Árni Ólafsson gerði fyrstu stig síðari leikhlutans og strax að þeim loknum steig Brenton Birmingham upp og kveikti í Njarðvíkurliðinu. Það virtist ekki skipta neinum sköpum hvar eða hvernig Brenton tæki skotið, alltaf vildi það ofan í og hvert stig hleypti kappi í kinn Njarðvikinga. Svo virtist sem mótlætið hefði slökkt í Hreggviði Magnússyni sem lét lítið fyrir sér fara í síðar hálfleik sem og restin af ÍR liðinu. Staðan að loknum þriðja leikhluta var 78-72 Njarðvík í vil og ÍR enn inni í leiknum.
Heimamenn voru þó komnir á bragðið og þegar Eiríkur Önundarson fékk sína fimmtu villu þegar sjö mínútur voru til leiksloka datt botninn úr leik ÍR. Skömmu síðar fékk Nate Brown einnig sína fimmtu villu og Njarðvíkingar létu kné fylgja kviði og kláruðu leikinn með 15 stiga sigri 100-85.
Eins og fyrr segir gerði Brenton Birmingham 31 stig í leiknum, auk þess tók hann 6 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þá átti Jóhann Árni Ólafsson einnig fínan dag í liði Njarðvíkur með 18 stig og kraftmikinn leik og ljóst að þessi sterki leikmaður er óðum að finna sitt gamla form eftir að hafa verið að glíma við meiðsli í sumar og vel framan af yfirstandandi leiktímabili. Hjá ÍR var Eiríkur Önundarson með 19 stig og Hreggviður Magnússon gerði 18 og tók níu fráköst.
Njarðvík er á toppi Iceland Express deildarinnar með 18 stig eins og KR en ÍR er í 9. sæti með átta stig.
Frétt og myndir af www.vf.is
{mosimage}