spot_img
HomeFréttirNjarðvíkingar funheitir í 1000. deildarleiknum

Njarðvíkingar funheitir í 1000. deildarleiknum

Njarðvík vippaði sér upp í 2. sæti Subwaydeildar karla í kvöld með 109-90 sigri á Hetti. Heimamenn.voru með glimrandi þriggja stiga nýtingu í þessum 1000. deildarleik félagsins í úrvalsdeild karla.

Félagarnir Haukur Helgi Pálsson, Nico Richotti og Oddur Rúnar Kristjánsson voru allir mættir aftur í búning í Njarðvíkurliðinu eftir mislangar fjarverur vegna meiðsla. 

Lagarfljótsormarnir byrjuðu betur og létu heimamenn hafa vel fyrir hlutunum en snemma fór að bera á góðri þriggja stiga nýtingu Njarðvíkinga sem leiddu 30-20 eftir fyrsta leikhluta. Mario Matasovic lokaði svo fyrri hálfleik með flautuþrist og Njarðvík leiddi 49-37 í hálfleik. Mario með 17 stig í fyrri og Haukur Helgi með 9 úr þristum og var að finna sig vel fyrir utan. Hjá Hetti var Adam Eiður Ásgeirsson að tengja við gamla heimavöllinn með 10 stig. 

Njarðvíkingar voru 10/20 í þristum í hálfleik og skotprósentan þeirra fyrir utan átti bara eftir að batna eftir því sem leið á leik, því miður fyrir Hattarmenn. 

Þegar allt kom til alls settu Njarðvíkingar 18 af 32 þristum niður í leiknum með 56% nýtingu og það fer oft langt með að vinna körfuboltaleiki. Hattarmenn gerðu vel að missa Njarðvíkinga ekki lengra frá sér en 19 stiga munur kvöldsins lýsir kannski ekki alveg þróun leiksins þar sem gestirnir misstu Njarðvík nokkuð framúr sér á lokametrunum.

Timothy Guers lauk leik með 21 stig fyrir Hött en var helst til rólegur framan af leik – kom sterkur inn í síðari hálfleik. Adam Eiður var heilt yfir að berjast vel og skilaði 17 stigum. Hjá Njarðvík var Mario Matasovic flottur með 26 stig og 9 fráköst og þá voru Dedrick og Lisandro báðir með 18 stig og Dedrick auk þess með 13 stoðsendingar. 

Eftir sigur kvöldsins er Njarðvík í 2. sæti deildarinnar með 18 stig en Höttur er áfram með 10 stig í 9. sæti í deildarinnar og í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni. Næst á dagskrá hjá Hattarmönnum er athyglisverður leikur gegn Þór Þorlákshöfn en Njarðvíkingar halda norður í Skagafjörð og spreyta sig gegn Tindastól undir stjórn Pavels. 

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -