spot_img
HomeFréttirNjarðvík jafnaði í Ljónagryfjunni

Njarðvík jafnaði í Ljónagryfjunni

Njarðvík jafnaði í kvöld undanúrslitaeinvígið gegn Fjölni í Subwaydeild kvenna. Staðan er nú 1-1 eftir 80-66 sigur Njarðvíkinga. Heimakonur leiddu megnið af leiknum þar sem Aliyah Collier var atkvæðamest með tröllatvennu eða 28 stig og 18 fráköst og þá var hún einnig með 6 stolna bolta. Hjá Fjölni var Aliyah Mazyck með 36 stig, 10 fráköst og 6 stolna bolta.

Fjölniskonur mættu með sína svæðisvörn til leiks en Njarðvíkingar fundu skotin framhjá henni og leiddu 25-18 eftir fyrsta leikhluta. Lavina og Helena Rafnsdóttir settu svo snemma tvo þrista í öðrum leikhluta og heimakonur að skjóta vel og berjast, staðan 42-33 í hálfleik.

Fjölniskonur komu tvíelfdar inn í þriðja leikhluta og náðu að komast yfir 49-51 en sú forysta dugði skammt. Njarðvík náði forystunni á nýjan leik og leiddu 55-53 en Fjölnir vann leikhlutann 13-20 þar sem Mazyck var svakaleg.

Collier opnaði fjórða með þrist og setti þannig tóninn fyrir Njarðvíkinga sem unnu leikhlutann 25-13 og leikinn því 80-66. Staðan því 1-1 í einvíginu og ljóst að leikur þrjú í Dalhúsum gæti orðið um margt athyglisverður.

Það er talsverð taktísk refskák í gangi í þessu einvígi og í kvöld fengu Njarðvíkingar það framlag sem á þurfti að halda til að gera vörn Fjölnis lífið leitt. Fleiri að skora en oft áður og að sama skapi voru Aliyah og Sanja með helstu sóknarábyrgðina Fjölnismegin og með hverjum leikhlutanum dró verulega af þeim.

Flottur leikur í Ljónagryfjunni í kvöld og því ekki úr vegi að hvetja sem flesta til að mæta á rimmu liðanna í Dalhúsum á sunnudag.

Tölfræði leiks

Myndasafn

Fréttir
- Auglýsing -