spot_img
HomeFréttirNjarðvík í úrslit í fyrsta sinn í 10 ár

Njarðvík í úrslit í fyrsta sinn í 10 ár

Nýliðar Njarðvíkur hafa tryggt sér sæti í úrslitum Subwaydeildar kvenna með 3-1 sigri á Fjölni í undanúrslitum. Fjórði leikur liðanna fór fram í Ljónagryfjunni í kvöld þar sem Njarðvík vann 64-58. Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en í þeim síðari voru Njarðvíkingar mun sterkari! Þetta er í fyrsta sinn síðan árið 2012 sem Njarðvík tekur þátt í úrslitum deildarinnar en það ár varð kvennalið Njarðvíkur meistari í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Aliyah Collier heldur áfram að safna tvennum en hún gerði 21 stig í kvöld og tók 24 fráköst! Hún bætti svo um betur með 7 stoðsendingar, 5 stolna bolta og 3 varin skot og fékk fyrir vikið klapp á bakið með 41 framlagsstigi! Nafna hennar Aliyah hjá Fjölni var með 19 stig í kvöld, 9 fráköst og 5 stoðsendingar.

Gestirnir frá Grafarvogi mættu betur til leiks og leiddu 19-22 eftir fyrsta leikhluta þar sem Aliyah Mazyk gerði 10 stig fyrir gestina í upphafs leikhlutanum.

Í öðrum leikhluta hélt glíman áfram, nokkuð stíft spilað en Fjölniskonur litlu feti framar og leiddu 30-32 í hálfleik. Aliyah Mazyk lét minna að sér kveða í öðrum hluta og skoraði ekki en Dagný Lísa var að eiga fínar rispur en að þeim tveimur frátöldum voru ekki aðrir liðsmenn Fjölnis að ná að tengja við sóknarleikinn.

Snemma í síðari hálfleik fór Njarðvík með sterkum varnarleik að smokra sér í bílstjórasætið, Lára kom inn af bekknum með virkilega sterkar rispur fyrir Njarðvíkinga og heimakonur unnu leikhlutann 21-7! Staðan var því 51-39 eftir þriðja leikhluta.

Eftir virkilega góðan þriðja leikhluta voru Njarðvíkingar farnir að ganga á öllum sílindrum og því varð ekki við neitt ráðið hjá Fjölni. Sama hvað gestirnir reyndu þá áttu þær ekki mikið erindi í fjórða leikhluta gegn einbiettu liði Njarðvíkinga, lokatölur því 64-58.

Athyglisverð rimma að baki þar sem deildarmeistarar Fjölnis komast í 1-0 en tapa svo næstu þremur leikjum gegn nýliðum Njarðvíkur. Að sama skapi mikill vöxtur í leik Njarðvíkinga sem höfðu verið að glíma við huggulega grámyglu í sínum leik skömmu fyrir úrslitakeppnina en það er ljóst að skjótt skipast veður í lofti.

Nú er orðið ljóst hvernig rimma Hauka og Njarðvíkur muni líta út en Haukar fara þar með heimaleikjaréttinn svo rimman hefst þann 19. apríl næstkomandi í Ólafssal í Hafnarfirði.

Tölfræði leiks


Dagskráin er eftirfarandi
Haukar (3) – Njarðvík (4)
þri 19. apríl 19:15 | Ásvellir
fös 22. apríl 19:15 | Ljónagryfjan
mán 25. apríl 19:15 | Ásvellir
fim 28. apríl 19:15 | Ljónagryfjan (ef þarf)
sun 1. maí 19:15 | Ásvellir (ef þarf)

Fréttir
- Auglýsing -