Þvert gegn öllum spám fyrir þessa leiktíð eru Njarðvíkurkonur komnar á topp Iceland Express deildarinnar ásamt Hamri og Keflavík sem þó eiga leik til góða á Njarðvíkinga. Njarðvík tók á móti Grindavík í fyrsta leik fimmtu umferðar í kvöld og lagði granna sína úr Röstinni 67-54. Dita Liepkalne fór mikinn í Njarðvíkurliðinu með 24 stig, 16 fráköst, 2 varin skot og 7 stolna bolta sem er það mesta sem einn leikmaður hefur hnuplað þessa leiktíðina. Berglind Anna Magnúsdóttir gerði 13 stig í liði Grindavíkur en hin 16 ára gamla Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir vakti verðskuldaða athygli en Ingibjörg gerði 11 stig í leiknum og tók 6 fráköst og komst vel frá sínu í stöðu leikstjórnanda. Nýliði sem nú hefur stimplað sig rækilega inn í deildina og á vafalítið eftir að reynast Grindvíkingum vel, heimabrugg eins og félagar okkar á NBA Ísland myndu kalla hana.
Gular úr Grindavík gerðu fjögur fyrstu stig leiksins og komust í 8-10 en fyrstu mínúturnar voru hraðar en mistækar þar sem báðum liðum var nokkuð mislagðar hendur í sóknarleiknum. Í stöðunni 13-15 Grindavík í vil tók Dita Liepkalne leikinn í sínar hendur og skoraði 5 síðustu stig leikhlutans og Njarðvíkingar leiddu 18-15 eftir fyrstu 10 mínúturnar. Berglind Anna var ógnandi í sóknarleik Grindavíkur í upphafi leiks en hjá Njarðvík byggðist hann að mestu í kringum Ditu.
Dita var ekkert hætt og í upphafi annars leikhluta skoraði hún körfu og fékk villu að auki sem kom Njarðvíkingum í 21-15 og Dita búin að gera 8 Njarðvíkurstig í röð. Eyrún Líf Sigurðardóttir, ein af þeim efnilegri í boltanum í dag, splæsti svo í þrist fyrir heimakonur sem byrjuðu leikhltann 6-0 og þá tók Jóhann Þór Ólafsson leikhlé fyrir Grindvíkinga og staðan 24-15.
Grindvíkingar voru í bölvuðu basli með Ditu sem fékk boltann oft uppi í teignum og keyrði af harðfylgi að körfunni og því fylgdi oftar en ekki karfa og villa að auki. Charmaine Clark var aðeins með 2 stig hjá Grindavík í leikhléi og ljóst að ungt og óreynt lið Grindavíkur má ekki við því að þeirra bandaríski leikmaður verði farþegi af nokkurri sort.
Njarðvíkingar pressuðu eftir skoraðar körfur sem virkaði ágætlega framan af og skilaði sér í nokkrum stolnum boltnum en Grindvíkingar gerðust þó varkárari með hverri mínútunni sem leið en töpuðu þó 15 boltum í fyrri hálfleik.
Njarðvíkingar leiddu með 10 stigum í hálfleik, 39-29 eftir flautukörfu hjá Berglindi Önnu fyrir Grindavík í Njarðvíkurteignum. Dita Liepkalne var með 19 stig, 7 fráköst og 5 stolna bolta í hálfleik hjá Njarðvík en í Grindavíkurliðinu var Berglind Anna Magnúsdóttir með 10 stig og 3 fráköst.
Nokkuð lifnaði yfir Field í Njarðvíkurliðinu og Clark í Grindavíkurliðinu í síðari hálfleik en þær stöllur höfðu verið ansi rólegar í fyrri hálfleik. Grindvíkingar náðu að minnka muninn í 7 stig 48-41 þar sem Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir, 16 ára leikmaður, var að berjast vel og sýna góða takta í Grindavíkurliðinu.
Njarðvíkingar náðu þó að slíta sig frá Grindavík að nýju og leiddu 56-43 að loknum þriðja leikhluta þar sem Dita Liepkalne var komin með 6 stolna bolta eftir 30 mínútna leik og þurfti því aðeins einn slíkan til viðbótar til að setja metið á þessu tímabili.
Tuðið í heimakonum í upphafi fjórða leikhluta uppskar tæknivíti og í kjölfarið fengu þeir leikmenn á Njarðvíkurbekknum hárþurrkumeðferðina frá Sverri Þór þjálfara sínum, höfum þau orð ekki eftir hér. Njarðvíkingar höfðu samt tökin á leiknum og sama hvað gestirnir reyndu komust þeir ekki nærri. Þegar fjórar mínútur voru til leiksloka náði Dita Liepkalne svo að setja met þessa vertíðina er hún stal sínum sjöunda bolta. Lokatölur reyndust 67-54, sanngjarn Njarðvíkursigur en Grindvíkingar sýndu enn eina ferðina að þeir kunna að berjast, þá vantar samt tilfinnanlega einhvern sem getur raðað niður stigum.
Vel var mætt í Ljónagryfjuna í kvöld en um 250 manns voru mættir til að berja Suðurnesjaslaginn augum.
Stigaskor:
Njarðvík : Dita Liepkalne 24/16 fráköst/7 stolnir, Shayla Fields 23/5 fráköst, Eyrún Líf Sigurðardóttir 6, Árnína Lena Rúnarsdóttir 6, Ína María Einarsdóttir 4, Heiða Valdimarsdóttir 2, Ólöf Helga Pálsdóttir 2, Anna María Ævarsdóttir 0, Ásdís Vala Freysdóttir 0, Dagmar Traustadóttir 0, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir 0, Jóna Guðleif Ragnarsdóttir 0.
Grindavík: Berglind Anna Magnúsdóttir 13/5 fráköst, Ingibjörg Yrsa Ellertsdóttir 11/6 fráköst, Charmaine Clark 10/6 stoðsendingar, Helga Hallgrímsdóttir 8/10 fráköst, Harpa Hallgrímsdóttir 8/17 fráköst/5 stoðsendingar, Alexandra Marý Hauksdóttir 2, Lilja Ósk Sigmarsdóttir 2, Alma Rut Garðarsdóttir 0, Jóhanna Rún Styrmisdóttir 0, Rakel Eva Eiríksdóttir 0, Alda Kristinsdóttir 0, Mary Jean Lerry F. Sicat 0.
Dómarar: Erlingur Snær Erlingsson, Davíð Tómas Tómasson
Myndasafn og umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]