spot_img
HomeFréttirNBA: Besta nýliðaval síðan 2003?

NBA: Besta nýliðaval síðan 2003?

6:56

{mosimage}

Derrick Rose 

Það eru mörg atriði sem menn hlakka til varðandi komandi NBA tímabil. Hvort sem það er hugmyndin um utandyra  stjörnuleik, Baron Davis hjá Clippers, endurkoma Dwyane Wade í Miami Heat eða hugmyndin um Ron Artest, T-Mac og Yao Ming þríeykið hjá Houston, þá eru flestir sammála um að frábært keppnistímabil sé í vændum. Eitt sem margir bíða þó spenntastir eftir, er eftirvæntingin eftir öllum þeim frábæru nýliðum sem komu í deildina í nýliðavalinu í ár.

Fyrstu þrjú sætin í nýliðavalinu skipuðu þeir Derrick Rose (Chicago), Michael Beasley (Miami) og OJ Mayo (skipt til Memphis frá Minnesota). Mikil eftirvænting er eftir þessum leikmönnum og sjá hvernig þeir munu standa sig hjá liðum sínum. Einnig er mikil eftirvænting eftir fjórða “nýliðanum” honum Greg Oden sem var valinn fyrstur í fyrra en meiddist á undirbúningstímabilinu og hefur ekki enn stigið sín fyrstu skref enn í deildinni.

Margir tala um að þetta sé besta nýliðaval síðan 2003 þegar LeBron James, Carmelo Anthony, Chris Bosh og Dwyane Wade komu úr fyrstu fimm valréttunum.  Allt eru þetta leikmenn sem eru lykilmenn í bandaríska landsliðinu sem og félagsliðum sínum. Hinsvegar hafa síðustu nýliðavöl ekki alveg sömu sögu að segja.

Hér ætla ég aðeins að líta á nýliðavölin síðan árið 2003 og fara aðeins yfir leikmennina sem voru valdir í efstu sætin.

2004
Árið 2004 má helst nefna Dwight Howard sem var valinn fyrstur af Orlando og er í raun eina “súperstjarnan” úr 2004 árgangnum. Emaka Okafor var valinn annar af Charlotte Bobcats. Hann hefur verið með ágætis tölfræði og spilað vel með liðinu en ekki náð að gert Charlotte að yfirburða liði í deildinni eins og menn vonuðust. Góður leikmaður en enginn stjörnuleikmaður. Loks var hann Ben Gordon valinn þriðji af Chicago Bulls. Gordon hefur spilað vel en þó fest sig í sessi sjötti maður Bulls en hann hefur aðeins byrjað inná í rúmlega þriðja hverjum leik hjá Bulls á þeim fjórum árum sem hann hefur verið hjá liðinu.

Besti leikmaðurinn: Dwight Howard (1.)
Mestu vonbrigðin: Shaun Livingston (4.)
Hástökkvarinn*: Andre Iguodala (níundi), Josh Smith (17.)

2005
Efstu þrjú sætin árið 2005 voru Andrew Bogut (Milwaukee), Marvin Williams (Atlanta) og Deron Williams (Utah). Bestu leikmennirnir voru valdir í þriðja og fjórða sæti en það eru leikstjórnendur bandaríska landsliðsins Deron Williams (þriðji) og Chris Paul (fjórði). Ástralinn Andrew Bogut var valinn fyrstur sem líkt og Emaka Okafor hefur aldrei náð þessum “súperstjörnu” status. Þó hann sé með ágætis tölfræði hjá Milwaukee þá á hann til að gleymast í umræðunni og hefur aldrei náð að mæta þeim væntingum sem til hans voru gerðar og til flestra sem eru valdir fyrstir í nýliðavali NBA.

Besti leikmaðurinn: Chris Paul (4.)
Vonbrigðin: Marvin Williams (2.) – kannski ekki beint vonbrigði en miðað við að Deron Williams og Chris Paul komu á eftir honum.
Hástökkvarinn: Monta Ellis (40.)

2006
Erfitt gæti verið að meta næstu 2 árganga þar sem leikmennirnir hafa aðeins spilað 1 eða 2 ár í deildinni. Efstu þrjú sætin árið 2006 skipuðu þeir Andrea Bargnani (Toronto), LaMarcus Aldridge (Portland) og Adam Morrison (Charlotte). Ekki beint kunnugleg nöfn sem kannski er lýsandi fyrir hversu slappt valið var árið 2006. Þó eru þetta ágætis leikmenn en yfirleitt eru efstu þrjú sætin skipuð þungavikta leikmönnum sem þeir teljast ekki beint til. Einnig er Brandon Roy kunnuglegt nafn en hann var valinn sjötti af Portland en hann var valinn nýliði ársins þetta ár. Önnur nöfn eru t.d. Tyrus Thomas (Chicago) og Rudy Gay (Memphis). Andrea Bargnani er af mörgum álitinn annar Darko Milicic sem var svo frægt valinn annar árið 2003 af Detroit en hefur aldrei náð að gera góða hluti í deildinni.

Besti leikmaðurinn: Brandon Roy (6.)
Mestu vonbrigðin: Andrea Bargnani (1.)
Hástökkvarinn: Rudy Gay (8.)

2007
Árið 2007 verður að teljast sem ágætis ár þar sem fyrstu tveir leikmennirnir sem voru valdir eiga mikla möguleika á að vera þekkt NBA nöfn um ókomin ár. Það eru þeir Greg Oden (Portland) og Kevin Durant (Seattle). Eins og flestir vita þá meiddist Greg Oden á undirbúningstímabilinu og spilaði ekkert á síðasta ári. Þrátt fyrir meiðslin binda menn miklar vonir við hann og spá að hann nái að gera góða hluti í deildinni. Kevin Durant var valinn nýliði ársins og spilaði mjög vel. Skoraði hann meðal annars 20 stig að meðaltali sem nýliði og eru ekki margir nýliðar í gegnum árin sem hafa náð því. Í þriðja sæti var síðan valinn Al Horford hjá Atlanta sem átti ágætis tímabil í fyrra. Erfitt er að meta aðra leikmenn í nýliðavalinu þar sem þeir hafa aðeins leikið eitt tímabil í deildinni.

Besti leikmaðurinn: Kevin Durant (2.)
Mestu vonbrigðin: Corey Brewer (7.)
Hástökkvarinn: Al Thornton (14.)

Nú er bara að bíða og sjá hvort að þeir Rose, Beasley og OJ Mayo ná að standa undir þeim gríðarlegum væntingum sem hafa verið bornar til þeirra. Allir hafa þeir spilað vel á undirbúningstímabilnu og verður fróðlegt að sjá hvað gerist nú þegar deildin byrjar í lok þessa mánaðar.

* Flokkurinn hástökkvarinn á við um leikmenn sem voru valdir mjög seint í nýliðavalinu og hafa skarað gríðarlega fram úr og komið mörgum á óvart.

Arnar Freyr Magnússon

Mynd: Photobucket

Fréttir
- Auglýsing -