spot_img
HomeFréttirMyndband: „Værum óstöðvandi ef við myndum spila við þessa stráka oftar“

Myndband: „Værum óstöðvandi ef við myndum spila við þessa stráka oftar“

Síðustu misseri hafa 11. ára körfuboltastelpur úr ÍR verið á flakki um Evrópu að leika körfubolta. Liðin æfðu og kepptu á nokkrum stöðum og urðu til að mynda í þriðja sæti í móti á Ítalíu þar sem liðið keppti við drengi á sama aldri. 

 

Einnig var liðið í Þýskalandi þar sem liðið æfði og keppti við Þýskalandsmeistara Bayern Munich. Drengirnir þar voru einu ári eldri en stúlkurnar en samkvæmt Brynjari Karli þjálfara liðsins börðust þær alveg uppá líf og dauða. 

 

Þessar sömu stúlkur hlutu nokkra athygli í byrjun síðasta leiktímabils er þær börðust fyrir því að fá að leika gegn strákum á Íslandsmóti minni bolta. Brynjar Karl Sigurðsson þjálfar liðið en beðni þeirra var ekki samþykkt og mótmæltu leikmenn og foreldrar því harkalega. 

 

„Ég er sannfærður um að ef þær fengju fleiri svona leiki þar sem verið er að pressa þær og djöflast á þeim um allan völl. Þá myndu þær bæta sig miklu meira.“ sagði Brynjar Karl um samkeppnina á mótinu á Ítalíu og bætti við: 

 

„Við lofuðum stelpunum í haust að fara á alvöru mót í Evrópu. Við erum ekkert smá lukkuleg með hvernig þetta hefur gengið. Það hefur verið vel tekið á móti okkur, við gætum bara ekki hugsað okkur betri ferð.“

 

Með liðinu í för er kvikmyndagerðarfólk frá Saga-Film sem hefur um nokkurt skeið fylgt liðinu og Brynjari Karli eftir. Ástæðan er sú að í bígerð er heimildarmynd um þjálfunaraðferðir Brynjars og þetta unga ÍR lið. 

 

Karfan.is áskotnaðist brot úr heimildarmyndinni þar sem sýnt er frá ferð þeirra í Ítalíu og Þýskalandi. Í klippunni má sjá viðtöl við leikmenn liðsins sem virðast hæstánægðar með samkeppnina. Óvíst er um hvenar myndin verður klár en hér að neðan má sjá þetta frábæra myndbrot úr ferðinni. 

 

Fréttir
- Auglýsing -