Undir 16 ára drengjalið Íslands tryggði sér í dag silfurverðlaun á Norðurlandamóti í Kisakallio í Finnlandi.
Verðlaunin vann Ísland eftir að hafa unnið alla sína leiki á móti nema einn. Voru jafnir Svíþjóð í efsa sætinu, en vegna innbyrðis stöðu þurftu íslensku drengirnir að sætta sig við silfrið.
Líklegast var tapið gegn Svíþjóð á fimmtudag eini slappi leikur liðsins á mótinu. Eða öllu heldur lok þess leiks, þar sem leikurinn var jafn og spennandi inn í fjórða leikhlutann.
Tveir leikir voru eftir af mótinu eftir leikinn gegn Svíþjóð. Fyrst gegn Danmörku í gær laugardag og svo lokaleikurinn í dag gegn heimadrengjum í Finnlandi og gerði Baldur Már Stefánsson þjálfari Íslands samning við lið sitt eftir tapið gegn Svíþjóð. Lofaði hann þeim því að næðu þeir að vinna þessa síðustu tvo leiki mótsins og gefa Íslandi með því tækifæri á að vinna mótið og tryggja liðinu medalíu mættu þeir fleygja honum í nærliggjandi vatn.
Liðið að sjálfsögðu tók þeim samning, vann þessa síðustu tvo leiki gegn sterkum andstæðingum og uppskar svo launin. Fengu að henda þjálfaranum í vatnið. Karfan hefur undir höndum myndband af því þegar Baldri var fleygt í vatnið, en það má sjá hér fyrir neðan.