spot_img
HomeFréttirMögnuð frammistaða Íslands og sigur á mótinu

Mögnuð frammistaða Íslands og sigur á mótinu

Íslenska U-20 landsið karla vann í kvöld sterkt æfingamót sem fram hefur farið í Reykjavík síðustu daga. Ísland vann Finnland örugglega í dag með frábærri frammistöðu og tryggði þar með sigur á mótinu. 

 

Umfjöllun um helstu atriði leiksins má finna hér að neðan:

 

Gangur leiksins:

 

Finnar byrjuðu aðeins betur og komust í 9-3 snemma í leiknum. Lítið var skorað og mikið um varnarleik. Ísland komst fljótlega aftur inní leikinn og staðan eftir fyrsta leikhluta 17-17. Í stöðunni 23-24 fyrir Finnlandi tók vörn Íslands við og stöðvaði allt sem Finnland gerði. 

 

Áhlaup Íslands var 28-0 og setti Finnland ekki stig á körfuna í nákvæmlega 10 mínútur frá miðjum öðrum leikhluta til þriðja. Þarna var munurinn orðinn nánast of mikill og Ísland slakaði aðeins á vörninni. Finnland hitti betur fyrir utan þriggja stiga og náði í stig. Það sem meira er þá gerði Ísland það líka og munurinn út leikinn alltaf yfir 20 stig. Lokastaðan 75-60 fyrir Íslandi en Finnland setti síðustu fimm stig leiksins. 

 

Hetjan:

 

Íslenska liðið fann Tryggva Snæ Hlinason mun betur undir körfunni í dag en í fyrri leikjum liðsins á mótinu. Tryggvi skilaði ótrúlegri tölfræðilínu í dag, 17 stig, 7 sóknarfráköst, 11 heildarfráköst, 5 stoðsendingar, 5 varin skot, 8 fiskaðar villur, 62% skotnýtingu og 30 framlagsstig. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson kom af bekknum í dag og skilaði 12 stigum og 9 fráköstum. Þórir var einnig valinn maður mótsins á verðlaunaafhendingu eftir leik. 

 

 

Kjarninn:

Virkilega sterkt fyrir íslenska liðið að sigra þetta æfingamót. Svíþjóð og Ísrael munu einnig leika í A-deild Evrópumótsins í sumar og Finnland féll síðasta sumar í B-deild og var með mjög sterkt lið á mótinu. Vörn liðsins var mjög góð í dag á köflum þegar menn létu finna fyrir sér og svöruðu í sömu mynt. Finnland er með sterkar skyttur og hafa verið mjög góðir í að finna opin skot á mótinu. Íslenska liðið var mjög klókt að stöðva það og ýta þeim úr sínum leik. 

 

Það gefur Íslandi mikið sjálfstraust að finna strax í fyrstu æfingaleikjum að liðið getur vel keppt við sterkustu lið evrópu. Liðið á enn nóg inni og nokkrir leikmenn enn að komast í takt við hörkuna og spilið sem evrópski körfuboltinn býður uppá. Æfingamótið gefur körfuboltaáhugamönnum samt góða tilfinningu fyrir EM sem fram fer á Krít um miðjan júlí. 

 

Tölfræði leiksins

 

Myndasafn # 1 (Bára Dröfn)

Myndasafn # 2 (Ólafur Þór)

 

 

Viðtöl eftir leik: 

 

 

Umfjöllun og viðtöl / Ólafur Þór Jónsson

Myndir / Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -