spot_img
HomeFréttirMikilvægur sigur Njarðvíkur í Ólafssal

Mikilvægur sigur Njarðvíkur í Ólafssal

Njarðvíkingar sóttu Hauka heim í Ólafssal í kvöld í 20. umferð Dominos deildar karla. Fyrir leikinn sátu Haukar í 6. sæti deildarinnar og Njarðvíkingar í 5. sætinu en liðin voru jöfn að stigum með 22 stig hvort.

Gestirnir úr Njarðvík fóru af stað með látum og settu niður þrjú þriggja stiga skot í röð á upphafsmínútunum. Á hinum endanum gekk ekkert hjá Haukunum sem skoruðu aðeins 2 stig á fyrstu 5 mínútum fyrsta leikhlutans. Frábær byrjun Njarðvíkinga lifði þó skammt og þeir klikkuðu á næstu 5 þriggja stiga skotum fimm sóknir í röð. Leikurinn jafnaðist út eftir fyrstu mínúturnar og munurinn ekki nema þrjú stig að fyrsta leikhluta loknum, 16-19.

Haukamenn stigu upp í öðrum leikhluta og hélst leikurinn jafn næstu 10 mínúturnar. Liðin skiptust á ágætum tilþrifum en það voru heimamenn sem leiddu með minnsta mun í hálfleik, 36-35.

Kári Jónsson fór fyrir heimamönnum í upphafi þriðja leikhlutans og skoraði fimm stig í röð. Njarðvíkingar voru þó fljótir að svara hverri körfu og undir lok leikhlutans skoruðu gestirnir 12 stig í röð og leiddu einmitt með 12 stigum fyrir síðasta leikhlutann, 49-61.

Fjórði leikhlutinn var heldur óspennandi í rauninni. Flenard Whitfield, besti leikmaður Hauka framan af, var farinn af velli meiddur en hann spilaði tæpar 20 mínútur í kvöld. Tölfræðin lýgur ekki og þegar allir leikmenn beggja liða fá að koma inn á völlinn er það sjaldnast vegna þess að leikurinn var í járnum. Haukum tókst aldrei að vinna á forystunni sem Njarðvík tók í þriðja leikhlutanum. Haukar unnu fjórða leikhlutann með einu stigi og 11 stiga sigur Njarðvíkinga niðurstaðan, lokatölur 76-87.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -