Keflavík lagði KR fyrr í dag í 22. umferð Dominos deildar kvenna, 77-71. Eftir leikinn er KR sem áður í öðru sæti deildarinnar á meðan að Keflavík færist upp í þriðja sætið, þar sem þær eru jafnar Haukum að stigum.
Hildur Björg Kjartansdóttir, landsliðsmiðherji, lék ekki fyrir KR í dag. Munar um minna, en það sem af er vetri hefur Hildur verið að skila 14 stigum og 8 fráköstum að meðaltali í leik.
Leikurinn var jafn og spennandi frá fyrstu mínútu. Eftir fyrsta leikhluta leiddi KR með einu stigi, 19-20. Undir lok fyrri hálfleiksins er leikurinn svo áfram í járnum, Keflavík komið með tveggja stig forskot þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 42-40.
Í upphafi seinni hálfleiksins halda liðin svo áfram að skiptast á snöggum áhlaupum. Aðeins eins stigs munur fyrir lokaleikhlutann, 60-59. Í honum gerðu heimakonur vel í því að vera skrefinu á undan og sigra að lokum með sex stigum, 77-71.
Atkvæðamest fyrir Keflavík í leiknum var Daniela Morillo með 29 stig, 9 fráköst og 4 stolna bolta. Fyrir KR var það Unnur Tara Jónsdóttir sem dróg vagninn með 17 stigum og 14 fráköstum.