Tveir leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þar sem Miami Heat komst í úrslit austurstrandarinnar með sigri á Chicago og Memphis Grizzlies komust í úrslit vesturstrandarinnar með sigri á Oklahoma.
Oklahoma 84-88 Memphis (4-1 og Memphis áfram)
Zach Randolph fór á kostum í liði Memphis með 28 stig og 14 fráköst. Þá var Kevin Durant með 21 stig, 8 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Oklahoma. Skiljanlega voru Memphis áhangendur og leikmenn sáttir eftir verk næturinnar því þetta er í fyrsta sinn sem Memphis Grizzlies leika til úrslita á vesturströnd NBA deildarinnar. Kevin Durant fékk kjörið færi til að jafna leikinn í nótt en kappanum brást bogalistin og Grizzlies fögnuðu sigri, svo bregðast víst krosstré sem önnur tré.
Miami 94-91 Chicago (4-1 og Miami áfram)
LeBron James var stigahæstur hjá Miami með 23 stig, 7 fráköst og 8 stoðsendingar en hjá Bulls var Carlos Boozer með 26 stig og 14 fráköst. Heat eru því kominr í úrslit austurstrandarinnar og mæta þar Indiana eða New York Knicks en eins og staðan er á þeim vígvellinum bendir allt til þess að Miami og Indiana leiki til úrslita í austrinu.
Tilþrif næturinnar
Mynd/ Zach Randolph fór mikinn í liði Grizzlies í nótt þegar liðið komst í fyrsta sinn í sögu félagsins í úrslit vesturstrandarinnar.