spot_img
HomeFréttirMiami jafnar metin (Umfjöllun)

Miami jafnar metin (Umfjöllun)

Hann hafði hægt um sig í fyrsta hluta hann LeBron James. Hitti 2/5 en á meðan léku San Antonio Spurs lausum hala. Refsuðu Miami vörninni hvað eftir annað og náðu snemma 19-26 forystu í lok fyrsta leikhluta.
 
9-0 sprettur Miami í öðrum hluta fór illa í taugarnar á Spurs mönnum og endaði Tim Duncan með tæknivillu um miðjan annan hluta. Þegar Duncan fær tæknivillur þá er eitthvað mikið að hjá Spurs liðinu.
 
Leikar voru jafnir 43-43 í hálfleik.
 
LeBron hafði skorað mikið í teignum en aðeins tekið tvö skot utan teigs í fyrri hálfleik. En þá byrjaði skothríðin. LeBron negldi niður sex skotum í röð og var 6/7 í þriðja hluta – og ekki eitt einasta dræf inn í teiginn.
 
Spurs náðu að halda sér inni í leiknum með þriggja stiga skotum en þar fyrir innan voru þeir eins og kleinur. Hittu ekkert og kláruðu ekki inni í teignum.
 
Þegar rúmar sex mínútur voru eftir af fjórða hluta fékk Tony Parker dæmda óíþróttamannslega villu á Mario Chalmers. Parker klúðraði báðum vítunum og í sókninni á eftir fékk Duncan tvö tækifæri af línunni sem hann klúðraði einnig. Fjögur víti forgörðum og þristur frá LeBron í grillið á leiðinni til baka… BOOM! Staðan orðin 88-87 fyrir Heat.
 
Chris Bosh, sem hefur verið rólegur í þessum leikjum, átti tvær gríðarlega mikilvægar sóknir fyrir Heat í lok leiks. Þristur úr hægra horninu og stoðsending á Wade þegar allur fókus varnar Spurs var á LeBron. 
 
Slakur leikur hjá Spurs í það heila. Tim Duncan spilaði vel með 18 stig og 15 fráköst, hans 157. tvenna í úrslitakeppni sem jafnar engan annan en Magic Johnson með flestar slíkar í keppninni. Tony Parker með 21 stig og 7 stoðsendingar. Manu Ginobili frábær af bekknum eins og venjulega með 19 stig.
 
LeBron var stórkostlegur fyrir Miami með 35 stig, 10 fráköst, 3 stoðsendingar og 2 stolna bolta. Bosh bætti við 18 stigum. Peningasvartholið hann Rashard Lewis er að stíga upp fyrir Miami núna. Setti 14 stig og var 3/7 fyrir utan í þessum leik. Framlagið af bekknum hjá Heat er ekki mikið hins vegar eða aðeins 12 stig á móti 37 frá Spurs.
 
Kawhi Leonard hefur ekki sýnt sínar bestu hliðar í sókn en drengurinn er að spila fantavörn á LeBron. Fylgist með honum í þessum leikjum. Spilar vörn með fótunum ekki síður en höndunum. Ryðst í gegnum allar hindranir því Pop hefur eflaust bannað honum að skipta af hindrunum fyrir LeBron. Framlag hans sést illa á tölfræðiskýrslunni en hann er að vinna fyrir kaupinu sínu.
 
Spurs þurftu að vinna þennan leik til að geta farið nokkuð afslappaðir til Miami. Þeir sluppu með skrekkinn í leik 1 en spiluðu bara illa megnið af þessum leik og verða að stela einum í Miami þar sem þeim tókst ekki að verja heimavöllinn í gær.
 

 
 
 
 
Fylgist með Ruslinu á:
Fréttir
- Auglýsing -