10:23:54
Framherjinn Carmelo Anthony hjá Denver Nuggets verður frá í a.m.k. 3 vikur eftir að hafa brotið bein í hægri hönd. Jeff Foster hjá Indiana sló í hönd hans í fyrrakvöld með þessum afleiðingum.
Nánar hér að neðan…
Þó þetta sé vissulega áfall fyrir Denver sem hefur óvænt verið meðal sterkari liða í deildinni, prísa Melo og Denver-menn sig vísast til sæla því að leikmaðurinn væri að horfa á mun lengri tíma í jakkafötum ef hann hefði þurft að fara í aðgerð á hendinni.
"Vonandi verð ég tilbúinn enn fyrr," sagði Melo í samtali við blaðamenn vestra og sló á létta strengi. "Nú get ég unnið að því að verða betri með vinstri."
Þessi meisli eru ekki þau einu sem eru að plaga Anthony því hann hefur átt við bólgur á vinstri olnboga að stríða og vonast til að verða góður af þeim í leiðinni.
Hann fékk höggið í upphafi 3. leikhluta í sigri á Indiana, en lék áfram þar til undir lok leiks þegar hann gat ekki meira.
"Við þurftum á þessum sigri að halda. Við gátum ekki leyft okkur að missa þennan leik úr höndunum," sagði Melo sem var þó svo þjáður að hann bað félaga sinn JR Smith að kippa upp fyrir sig teygjubindi sem hann var með á olnboganum
"Hann sagði við mig, "Þú ert alveg í rusli", sagði Anthony. "Olnboginn meiddur, höndin meidd. Ég gat ekki gert neitt."
Nuggets hafa nú unnið fjóra leiki í röð og er árangur þeirra hingað til, 24-12, sá besti í sögu liðsins frá fyrsta ári þess í deildinni 1976-1977.
Af næstu átta leikjum verða sjö á heimavelli þannig að tímasetningin á þessum meiðslum gæti vart verið betri.
Líklegast þykir að Smith leysi Anthony af í framherjastöðunni, en það gerði hann með ágætum árangri þegar Melo var frá í 3 leiki vegna olnbogameiðslanna fyrr í vetur.
Heimild/AP
ÞJ