Grindavík tók á móti Íslandsmeisturum Njarðvíkur í Subway deild kvenna í kvöld. Fyrir leik höfðu meistararnir tapað þremur leikjum í röð, á meðan Grindavík gátu unnið sinn þriðja leik í röð.
Heimakonur höfðu tögl og hagldir í fyrsta leikhluta, og náðu 12 stiga forskoti, 28-16, um miðjan annan leikhluta. Njarðvíkingar unnu sig hins vegar betur inn í leikinn og höfðu jafnað leikinn áður en liðin gengu til búningsherbergja, staðan í hálfleik hnífjöfn 40-40.
Grindavík voru skrefinu á undan í þriðja leikhluta og höfðu fjögurra stiga forskot fyrir lokafjórðunginn, 63-59. Liðin önduðu ofan í hálsmálið hvort á öðru framan af fjórða leikhluta, en þegar um þrjár mínútur voru eftir tóku gestirnir úr Njarðvík fram úr. Meistararnir náðu 12 stiga forskoti og virtust ætla að sigla sigrinum heim nokkuð örugglega. Heimakonur voru hins vegar ekki af baki dottnar, og náðu með harðfylgi að minnka muninn niður í þrjú stig þegar nokkrar sekúndur lifðu af leiknum. Nær komust þær hins vegar ekki og Njarðvík vann að lokum fjögurra stiga sigur, 79-83.
Aliyah Collier var stigahæst Njarðvíkinga með 32 stig og 11 fráköst, en hjá Grindavík var Danielle Rodriguez stigahæst með 29 stig og 12 fráköst.
Næst spilar Njarðvík á heimavelli gegn Fjölni 16. nóvember næstkomandi. Sama kvöld fara Grindvíkingar í heimsókn í Smárann þar sem þær leika við Breiðablik.
Myndasafn(væntanlegt)