23:03:37
Líklegt þykir að meistarar LA Lakers haldi helstu leikmönnum sínum á næstu leiktíð, en óvíst er með framhaldið hjá Phil Jackson, þjálfara liðsins.
Kobe Bryant hefði getað fengið sig lausan frá liðinu í sumar, en hefur tekið af öll tvímæli um að hann muni verða áfram hjá liðinu á næsta ári og út þau tvö ár sem hann á eftir af samningi sínum.
Framherjarnir Lamar Odom og Trevor Ariza eru hins vegar í annarri stöðu þar sem þeir eru báðir samningslausir og geta farið hvert sem þeirra krafta er óskað. Báðir sönnuðu þeir gildi sitt fyrir liðið í úrslitakeppninni þar sem þeir fóru á kostum. Fjölhæfni Odoms og varnarleikur Ariza eru meðal helstu styrkleika Lakers og ættu að koma til tals í væntanlegum samningaumleitunum.
Ariza var ekki á háum launum miðað við marga í deildinni, var með um 3 milljón dala, og gæti átt von á launahækkun. Það sem setur strik í reikninginn fyrir hann er að í núverandi efnahagsástandi eru öll lið að skera niður og enginn væri til í að sprengja bankann fyrir mann sem á eitt gott tímabil. Þess vegna er líklegast að hann verði áfram í LA, sínum heimabæ.
Hvað Odom varðar, var hann á afspyrnugóðu kaupi þar sem hann fékk 14 milljónir dala í laun sem sjötti maður lengst af tímabilsins. Hann hefur þegar sagst sætta sig við launalækkun, en hversu mikla? Odom er í sömu stöðu og Ariza, þ.e. það eru fáir tilbúnir að taka fram stóra veskið, og aukinheldur hefur hann lýst því yfir að hann vilji vera áfram. Hann gæti, að mati körfuspekinga, jafnvel fengið enn stærra hlutverk í liðinu á næsta ári þar sem hann gæti að hluta til verið notaður sem leikstjórnandi, eða "point-forward" , en eins og flestir vita sem þekkja til leikskipulags Phil Jackson er hann ekki þekktur fyrir að nota „klassíska“ leikstjórnendur í þríhyrningssókn sinni.
Það þykir því nokkuð líklegt að Ariza og Odom sitji sem fastast og reyni að bæta við titlum með gífursterku liði Lakers.
Jackson sjálfur hefur hins vegar ekki gefið neitt út um framhaldið hjá sér, en ákvörðunin mun velta á heilsufari hans. Þessi sigursælasti þjálfari í sögu NBA (hvað varðar meistaratitla) á eitt ár eftir af samningi sínum við liðið, en hefur lengi átt við mjaðmareymsli að stríða og hefur nýlega látið skipta um báða mjaðmarliði. Hann ber sig þó vel og býst við að geta gefið lokasvar á næstu tveimur eða þremur vikum.
Jafnt stuðningsmenn Lakers sem og leikmenn og aðstandendur liðsins bíða spenntir með að heyra hvernig fer.
Mynd/AP: Odom vill vera áfram
ÞJ