spot_img
HomeFréttirMeistarar Keflavíkur illvígar gegn nýliðum Breiðabliks

Meistarar Keflavíkur illvígar gegn nýliðum Breiðabliks

 

Keflavík sigraði í gær Breiðablik í æfingaleik liðanna í Smáranum, 91-61. Blikastelpur eru enn á ný komnar í Domino‘s deild kvenna eftir sigur í úrslitakeppni 1. deildar kvenna á síðasta tímabili á meðan að Litlu Slátrarnir komu spámönnum á óvart í fyrra og unnu bæði Maltbikar kvenna og Íslandsmeistaratitilinn. Bæði lið spiluðu á fullum hópi í gær og ljóst að verið var að undirbúa keppnistímabilið og ekkert gefið eftir.

 

 

Breiðablik náði að halda í við Keflavík í fyrri hálfleik þrátt fyrir slaka byrjun þar sem þær hleyptu Keflavík of oft í auðveldar körfur og hefðu mátt passa betur upp á boltann. Í hálfleik var staðan 35-44 og Blikar á ágætu róli þrátt fyrir þó nokkur mistök og lélega skotnýtingu. Í þriðja leikhluta virtust Blikastelpurnar springa á limminu vegna þess að Keflavík hélt áfram að rúlla á meðan að ekkert virtist ganga upp hjá heimastúlkum í seinni hálfleiknum. Það gæti reyndar haft eitthvað með það að gera að Salbjörg Ragna Sævarsdóttir, miðherji Keflavíkur, kom ekki inn á fyrr en í seinni hálfleik, en hún var að koma heim að utan. Í upphafi fjórða var staðan 47-71 og batnaði ekki úr því. Sigur Íslandsmeistara kvenna 2017 var því staðreynd.

 

 

Brittany Dinkins, nýr erlendur leikmaður Suðurnesjastúlknanna, stóð sig vel í kvöld, skilaði 26 stigum og virtist vera að fíla sig í þéttum hópi Keflavíkur. Hið sama má ekki segja um Rickell Preston, erlendan leikmann Breiðabliks, en hún skoraði einungis 10 stig og var ekki afgerandi á nokkurn hátt. Isabella Ósk Sigurðardóttir og Sóllilja Bjarnadóttir voru bestar í liði Blika, en Isabella skoraði 16 stig og var kappsöm undir körfunni á meðan að Sóllilja skilaði 15 stigum með stöðugri ásókn að körfu andstæðinganna.

 

 

Það sem stóð upp úr var að Keflavík rúllaði mjög vel á sínum mannskap, en tíu leikmenn skoruðu hjá þeim, þar af voru fjórar með 10 stig eða meira. Hjá Breiðablik komust aðeins sex leikmenn á blað, þó að þar hafi líka fjórar verið með 10 stig eða meira.

 

 

Keflavíkurmærar líta út eins og þær eru reiðubúnar fyrir tímabilið af þessum leik að dæma; vel spilandi, flott flæði í sóknarleiknum og vörnin þeirra er góð og snögg að refsa mistökum hjá hinu liðinu. Þær gætu vel unnið allt á þessu tímabili eins og því seinasta og það er jafnvel spurning hvort að þær séu að fara tapa leik á þessu ári. Breiðablikstelpur hafa núna tvo leiki í röð litið vel út framan af en ekki getað klárað leikinn sannfærandi. Þær hafa auðvitað misst Hildi Björgu Kjartansdóttur til Spánar, en þær verða að finna einhverjar til að fylla þá stöðu, hvort sem það er afgerandi erlendur leikmaður eða góður íslenskur leikmaður. Þær þurfa hreinlega fleiri leikmenn til að spila fleiri góðar mínútur. Að öðrum kosti munu þær staldra stutt við í úrvalsdeild kvenna að þessu sinni.

 

 

 

Umfjöllun: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -