spot_img
HomeFréttirMatthías Orri: Þetta er svona gott lið

Matthías Orri: Þetta er svona gott lið

Matthías Orri Sigurðsson var gríðarlega ánægður með sigur ÍR gegn Njarðvík í kvöld en með sigrinum er liðið búið að vinna tvo leiki í röð og komið í átta stig eins og fimm önnur lið í deildinni. 

 

ÍR mætti tilbúið til leiks og hafði yfirhöndina allan leikinn. Matthías sagði í samtali við Karfan.is eftir leik að þetta væri rétta andlit ÍR liðsins:

 

„Við vorum ákveðnir að sýna hvað í okkur býr. Þetta er svona gott lið. Við erum búnir að verja heimavöllinn síðustu tvo leiki og ætlum að halda því áfram og þá eru allir vegir færir.“ sagði Matthías og bætti við:

 

„Við erum búnir að læra að koma inní seinni hálfleik almennilega. Við höfum nánast alltaf í vetur verið yfir í hálfleik og oft glatað því. Við erum búnir að læra af þeim mistökum og við gerðum það í kvöld.“ 

 

Matthías átti góðan leik fyrir ÍR með 17 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar en ÍR kom brjálað til leiks eftir að hafa tapað fjölmörgum leikjum á slakri frammistöðu í seinni hálfleik. Matthías viðurkenndi að þetta vandamál hafði lagst nokkuð þungt á menn og leitað að leiðum til að gera úrbætur á. 

 

„Það er búið að ræða þetta nánast frá fyrsta tapleik, það tók meiri tíma en við hefðum viljað að læra af þessu sem er búið að koma okkur í vonda stöðu. Tókum aðeins til hjá okkur og lærðum að klára þessa leiki. Komum fullir sjálfstrausts í leikinn og sýndum hvað býr í okkur.“

 

Quincy Hankins Cole kom til liðs við ÍR fyrir rúmum þremur vikum. Hann hefur komið vel út í fyrstu leikjum sínum með liðinu og var besti maður vallarins í kvöld. 

 

„Fólk sem kemur á leiki sér að það skín af honum leikgleðin. Hann er alltaf brosandi, það er eldur í honum. Hann verður bæði reiður og ánægður. Cole er dansandi hérna fyrir leiki og þetta hefur bara jákvæð áhrif á okkur. Auk þess er hann gríðarlega sterkur undir körfunni. Það er ástæða fyrir því að þeir taka svona mikið af þriggja stiga körfum í leiknum, þeir bara þorðu ekki að körfunni með hann þar. Við erum í skýjunum með hann.“ 

 

„Við spiluðum góða vörn í dag, þeir skora bara 73 stig og við náðum að stoppa þá oft vel. Þá héldum við niðri þeirra lykilmönnum ágætlega. Svo er ég þokkalega sáttur við sóknina, létum boltann renna vel þannig þetta var fyrst of fremst liðssigur. Það er erfitt að koma í Seljaskóla, ég veit það bara sjálfur síðan ég spilaði gegn ÍR. Það er skrýtin stemmning hérna, oft mikil læti og trommur og það hjálpaði okkur í dag.“ sagði Matthías um stemmninguna í Hertz hellinum í kvöld sem var frábær. 

 

 

„Stuðningsmenn tóku meðvitaða ákvörðun með okkur eftir útileikinn gegn Þór Ak að rífa þetta upp með okkur þegar illa gekk. Þetta sýnir karakter hvernig þeir taka á því þegar upp koma vandræði. Við erum komnir með átta stig núna, ætluðum að vera með mun meira fyrir áramót. Það er einn leikur eftir fyrir áramót, við ætlum að vinna hann og koma okkur í góða stöðu fyrir seinni helming mótsins.“ sagði Matthías að lokum

 

 

Mynd / Bára Dröfn.

Fréttir
- Auglýsing -