Matthías Orri Sigurðsson og stjórn kkd. KR hafa komist að samkomulagi um að rifta leikmannasamningi Matthíasar við KR og leyfa honum að ganga til liðs við ÍR. Þetta kemur fram á Facebook-síðu þeirra KR-inga sem og í yfirlýsingu sem send var frá klúbbnum.
Í yfirlýsingunni segir einnig:
„Matthías er ungur og efnilegur leikmaður, sem á framtíðina fyrir sér, og kaus að leita sér tækifæri hjá nýju liði þar sem samkeppni um spilatíma í bakvarðarstöðunni verður mikil hjá KR í vetur. Við óskum Matta alls hins besta og munum bjóða hann velkominn heim í KR.“
Eins og áður hefur komið fram samdi KR nýverið við Pavel Ermolinski og því ljóst að mínútum Matthíasar sem gegnir stöðu leikstjórnanda fækkaði þar verulega. Í Hertz-Hellinum verður von á mun fleiri mínútum fyrir Matthías sem líkast til mun ganga inn í stórt hlutverk hjá Örvari Kristjánssyni nýráðnum þjálfara ÍR-inga.
Mynd/ Frá því fyrr í sumar þegar Matthías samdi við KR.