Heima er best sagði einhver og Matthías Orri Sigurðarson hefur líkast til heyrt í viðkomandi þegar þessi orð féllu því hann hefur samið við KR og mun leika með liðinu í Domino´s deildinni á næstu leiktíð. Hvalreki á fjörur KR-inga en Matthías er uppalinn KR-ingur en lék með Flagler háskólanum í Bandaríkjunum á síðustu leiktíð. Aðspurður hvort hann væri að semja við KR því hann væri hundhlýðinn og tryggur sagði Matthías: „Já, ætli það ekki!“
Matthías Orri er leikstjórnandi svo framvarðasveitin er ekki amaleg orðin í vesturbænum, í reynd er erfitt að sjá hvar röndóttir eigi að koma fyrir erlendum atvinnumanni í byrjunarliðið því í okkar augum á Karfan.is lítur það svona út í dag: Matthías Orri Sigurðarson, Martin Hermannsson, Brynjar Þór Björnsson, Helgi Magnússon og Finnur Atli Magnússon. Fjórir A-landsliðsmenn í byrjunarliðinu!
„Á endanum fannst mér það spennandi að spila fyrir mitt félag og mitt fólk og þá staðreynd að líklega hafi ég meira gaman að því að vinna titil fyrir fólk sem hefur unnið fyrir mig í gegnum tíðina. Svo að sjálfsögðu að spila í DHL – mekka körfuboltans!“
Finnur Freyr Stefánsson tók nýverið við þjálfun KR og verður það í fyrsta sinn sem hann gerist aðalþjálfari liðs í efstu deild karla hérlendis og því ákveðin eldskírn framundan þó Finnur hafi vissulega verið aðstoðarþjálfari í deildinni áður. Matthías og Finnur hafa í gegnum tíðina unnið töluvert saman.
„Við byrjuðum á því að vinna mikið saman fyrir um það bil þremur árum en þá tók Finnur við 11. flokki í KR og ég æfði t.d. mikið með honum á sumrin. Ég lít á hann sem einn besta „player development“ þjálfara á landinu og sambandið okkar hefur verið mjög gott. Þetta allt saman var vissulega stór þáttur í því að ég hef nú samið við KR,“ sagði Matthías sem rétt áðan festi framtíð sína á blað í Vesturbænum.
Röndóttir verða sterkir næsta vetur, á því leikur enginn vafi en það verður þó skarð fyrir skyldi að missa Kristófer Acox út í nám. „Ég býst við því að liðið bæti við sig öðrum íslenskum leikmanni en annars held ég að hópurinn verði nokkuð svipaður. Við ætlum okkur að nýta meira úr honum heldur en seinustu tvö ár, það er amk. planið. Ég tel hópinn vera orðinn nokkuð þéttan með fjóra landsliðmenn í Martin, Brynjari, Helga og Finn. Vonandi fáum við bara sem mest út úr þessu,“ sagði Matthías Orri.