spot_img
HomeFréttirMatthías Imsland opnaði nýjan vef karfan.is

Matthías Imsland opnaði nýjan vef karfan.is

 
Nýr og endurbættur vefur karfan.is hefur verið opnaður. Það var Matthías Imsland forstjóri Iceland Express, sem opnaði síðuna, en fyrirtækið hefur verið eini bakhjarl hennar síðastliðin tvö ár. Matthíasi til halds og trausts við opnunina voru Jón Björn Ólafsson, eigandi og ritstjóri karfan.is, og Kjartan Vídó verkefnastjóri Smartmedia sem sá um uppsetningu vefsíðunnar.
 
 
Vefsíðan er unnin í sjálfboðavinnu og stuðningur Iceland Express gerir forsvarsmönnum hennar kleift að ferðast m.a. til Evrópulanda og greina frá afrekum íslenskra körfuboltamanna á erlendum vettvangi. Það var því vel við hæfi að Matthías opnaði nýja vefinn.
 
,,Það er ómetanlegt fyrir Körfuknattleikssambandið og ekki síður leikmenn og áhugamenn um körfubolta að þessari síðu skuli haldið úti. Þarna fá menn helstu fréttir af körfuboltanum og úrslit um leið og þau liggja fyrir. Það ber að þakka það óeigingjarna starf, sem þeir sem halda úti síðunni vinna. Okkur hjá Iceland Express finnst það heiður að taka þátt í slíku.“
 
Jón Björn Ólafsson stofnaði síðuna þann 14. desember árið 2005 ásamt þeim Davíð Inga Jóhannssyni og Ingva Steini Jóhannssyni. Hjörtur Guðbjartsson sá þá um tæknilegan undirbúning en allar götur síðan hafa körfuknattleiksáhugamenn staðið þétt að baki vefsíðunni.
 
,,Við svona tækifæri ber að þakka mörgum og þá einna helst þeim Sæþóri og Kjartani hjá Smartmedia sem komu vefsíðunni á koppinn og ekki síður ber að þakka Skúla Sigurðssyni við útlitshönnun síðunnar. Karfan.is byggir starf sitt á fórnfýsi áhugamanna um körfuknattleik og þessir fjölmörgu aðilar hafa komið vefsíðunni í fremstu röð hvað varðar körfuknattleiksumfjöllun á Íslandi og víðar. Þessum aðilum vil ég færa kærar þakkir, án ykkar hefði þetta ekki verið mögulegt,“ sagði Jón Björn Ólafsson, ritstjóri Karfan.is.
 
Mynd frá vinstri: Jón Björn Ólafsson, Matthías Imsland og Kjartan Vídó
Fréttir
- Auglýsing -