,,Það sem gekk vel var bara að við mættum gríðarlega vel stemmdir til leiks og allir voru með 100% fókus á því sem við vorum að gera enda flestir að spila sinn fyrsta Evrópuleik. Það voru allir að leggja í púkkið og við erum með það breiðan hóp að við þurfum að nýta okkur það. Við vorum að spila á öllum 12 leikmönnunum sem segir margt um hópinn," sagði Martin Hermannsson eftir sigur U18 ára landsliðs Íslands gegn Sviss í Evrópukeppninni í kvöld. Martin var stigahæstur í íslenska liðinu með 21 stig.
,,Við vorum ákveðnir í seinni hálfleik að drepa alla von um að þeir gætu komið til baka og það gekk vel til þess að byrja með, komum þessu upp í 30 stig og þá fóru við svolítið að slaka á og hættum að spila þessa góðu vörn sem við vorum búnir að gera allan leikinn. Við megum bara ekki við því, og þá komust þeir á smá "run" en við náðum að standa það af okkur og kláruðum þennan leik og ég er virkilega sáttur með það," sagði Martin og gerir sér grein fyrir styrk andstæðinga Íslands á morgun.
,,Í sambandi við leikinn á morgun er bara það að þeir eru líklegast sterkasta liðið í þessum riðli og það eru allir mjög spenntir og einbeittir fyrir leikinn á morgun. Þeir líklegast spila fast og eru með stóra stráka, og við þurfum að eiga okkar besta leik á morgun til þess að taka sigur."