María Ben Erlingsdóttir mun á komandi tímabili spila með Grindvíkingum en í dag var samningur þess undirritaður á milli þessara tveggja aðila. María er miðherji sem kemur úr Keflavíkinni en í fyrra spilaði hún í Frakklandi og þar áður með liði Vals.
Jón Halldór Eðvaldsson þjálfari Grindvíkinga kvaðst sáttur með að María væri komin í liðið og sagði að hópur hans væri nú klár í veturinn. “María er þekkt stærð í þessari deild og öflugur leikmaður. Við auðvitað búumst við miklu af henni í vetur líkt og frá öllum öðrum leikmönnum okkar. Við spilum á morgun við Keflavík en það er óvíst hvort hún verði samt með í þeim leik.” sagði Jón Halldór í snörpu viðtali við Karfan.is
Með þessari undirskrift hafa Grindavíkurstúlkur svo sannarlega tekið skrefið til fulls í því að verða sigurstranglegasta liðið þennan veturinn en í sumar nældu Grindvíkingar sér einnig í besta leikmann deildarinnar á síðasta tímabili, Pálínu Gunnlaugsdóttir.