Margrét Sturlaugsdóttir skrifaði nú í dag undir samning um þjálfun á yngriflokkum hjá Njarðvík. Margrét er hokin reynslu yngriflokka þjálfunar og því um að ræða hvalreki fyrir unglingastarf Njarðvíkinga. Magga, eins og hún er jafnan kölluð, hefur verið við þjálfun hjá yngriflokkum Keflavík í hartnær 20 ár en tók sér frí á síðasta ári. „Það er alltaf gaman að breyta til“ sagði Magga aðspurð hví hún væri komin „yfir lækinn“ til Njarðvíkinga.
Hví hélstu ekki áfram að þjálfa í Keflavík ?
Kannski er bara ekki pláss fyrir mig þar lengur. Hugmyndir mínar og þeirra sem stjórna þar fóru ekki saman að þessu sinni.
En hvernig kom það þá upp að fara til Njarðvíkur ?
Ég var búin að vera í ársfríi og mig langaði ekkert að vera í fríi lengur þar sem ég hef einnig tekið að mér landsliðsþjálfun. Ég hafði samband við Njarðvíkinga og kannaði áhuga þeirra á mínum starfskröftum og þeir tóku mjög vel í það og hér erum við.
Hverjar verða þínar áherslur í Njarðvíkinni ?
„Ég hef séð í gegnum tíðina gommu af leikmönnum hér í Njarðvíkinni en kannski alltaf vantað örlítið uppá aðhaldið og metnaðinn. Mig langar að kanna hvort ég geti hjálpað til með það. Ég mun vera með yngri flokk (5. Bekk) kvenna í minibolta og 7. flokk en svo vil ég reyna að koma sem víðast við og eitthvað hafa puttana í stúlknaflokki líka. Ég lít á þetta þannig að nú er ég að fara að gera eitthvað að alvöru úr mínum þjálfara ferli. Nú kemur í ljós hvort mín hugmyndafræði í sportinu virki á öðrum vígstöðvum eða hvort ég sé bara búin að vera hundheppin eins og líklega margir segja. Þetta er prófraun fyrir mig sem þjálfara.“
Nú átt þú tvær hörku efnilegar í boltanum sem spila í Keflavík. Munu þær koma til að fylgja þér til Njarðvíkur ?
Nei.