Haukur Helgi Pálsson og félagar í Assignia Manresa riðu ekki feitum hesti frá viðureign sinni gegn Real Madrid í ACB deildinni á Spáni um helgina. Með sigrinum komust Madrídingar á topp deildarinnar þar sem þeir sitja með Barcelona en bæði lið hafa leikið 12 leiki, unnið 10 og tapað tveimur.
Assignia Manresa lá 83-61 þar sem Haukur Helgi Pálsson lék í tæpar 16 mínútur en náði ekki að skora. Haukur tók eitt skot í teignum og eitt þriggja stiga skot í leiknum en þau vildu ekki niður. Hann tók eitt frákast og þar við sat. Nikola Mirotic var stigahæstur í liði Madrídinga með 20 stig en hjá Manresa var Micha Downs með 19 stig. Eftir leik helgarinnar er Manresa í 12. sæti deildarinnar með 10 stig, 5 sigrar og 7 tapleikir.