Grindvíkingar munu leika til úrslita þriðja árið í röð eftir rosalegan sigur á Njarðvík í oddaviðureign liðanna í Röstinni í kvöld. Veikan blett var vart að finna á Íslandsmeisturum síðustu tveggja ára og ríkjandi bikarmeisturum og með þessari spilamennsku eru þeim allir vegir færir. Lokatölur í Röstinni í kvöld voru 120-95 Grindavík í vil.
Grindavík og KR munu því leika til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn en það verður þá í þriðja sinn sem þessi félög mætast í úrslitum. KR-ingar hafa unnið báðar úrslitarimmur liðanna, fyrst 2000 og aftur 2009 í einhverri mest epísku úrslitaviðureign íslenska boltans.
Varðandi leikinn í kvöld er fátt annað hægt að segja en að Grindvíkingar hafi farið hamförum. Sex liðsmenn gerðu 11 stig eða meira í leiknum. Clinch með 31 stig og 10 stoðsendingar og í þessum ham þá smitaði hann vel frá sér, Sigurður Gunnar var snöggur í gang en þegar bráði af honum tók Ómar Örn við keflinu, Grindvíkingar leiddu 38-19 eftir fyrsta leikhluta!
Liðið var 60% í teignum í fyrri hálfleik og 58,3% í þristum, staðan 62-41 í leikhléi og ekki fékkst séð að Njarðvíkingar ættu afturkvæmt þrátt fyrir hið margumtalaða sunnanrok í Röstinni.
Í þriðja leikhluta fóru heimamenn aftur yfir 30 stigin, það gekk einfaldlega allt upp hjá þeim. Skotin voru að detta, baráttan í botni og sjálfstraustið, það var skýjum ofar. Lokatölur voru 120-95 og ekki oft þetta tímabilið sem við höfum séð lið tapa sem gerir 95 stig en það gerist þegar lið setur met eins og Grindavík gerði í kvöld!
Grindvíkingar urðu sem sagt fyrsta liðið í íslenska boltanum til að skora 120 stig í oddaleik. Fyrra metið var 115 stig og þá er viðureign kvöldsins næststigahæsta oddaviðureign sögunnar með 215 heildarstig en mest skoruðu KR og Snæfell í oddaleik árið 2005 eða 221 stig.
Húnavökunni undir stjórn Einars Árna er þar með lokið ef þannig má að orði komast. Einar Árni Jóhannsson stýrði sínum síðasta leik með Njarðvíkurliðið og við tekur Friðrik Ingi Rúnarsson ef marka má þær fregnir sem borist hafa af þjálfaramálum í Ljónagryfjunni. Einar hefur gert ansi athyglisverða hluti með þennan unga hóp en liðið féll síðustu tvö ár út í 8-liða úrslitum og komst í undanúrslit þetta tímabilið. Nú segja grænir skilið við Einar Árna í meistaraflokknum sem og Elvar Már Friðriksson sem heldur á vit ævintýranna í háskólaboltanum í Bandaríkjunum, hann er að öðrum ólöstuðum einn besti leikmaður tímabilsins í deildinni.
Grindvíkingar verða illir viðureignar í úrslitum ef þeir byggja vel ofan á þennan sigur sinn. Reynslumikill hópur sem steig vart feilspor í kvöld. Clinch var ótrúlegur, stóru kapparnir Ómar og Sigurður stóðu svo sannarlega fyrir sínu, Jón Axel Guðmundsson var gríðarlega vel stilltur inn á þennan leik og barðist eins og hann væri með tíu úrslitakeppnir á bakinu, hvergi banginn. Þá voru Jóhann Árni og Ólafur einnig traustir, veglegt framlag úr öllum áttum í liði Grindvíkinga og Njarðvíkingar áttu engin svör.
Úrslitin hefjast á mánudag, KR hefur heimaleikjaréttinn sem deildarmeistari og því hefjast leikar í DHL-Höllinni en síðast þegar KR og Grindavík mættust þar urðu Grindvíkingar fyrstir til að leggja KR að velli í deildinni. Þessi úrslitasería verður athyglisverð í meira lagi.
Grindavík-Njarðvík 120-95 (38-19, 24-22, 34-26, 24-28)
Grindavík: Earnest Lewis Clinch Jr. 31/10 stoðsendingar, Sigurður Gunnar Þorsteinsson 24/6 fráköst/5 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 19/12 fráköst, Jóhann Árni Ólafsson 17, Ólafur Ólafsson 14/7 fráköst, Jón Axel Guðmundsson 11/8 fráköst, Daníel Guðni Guðmundsson 2, Magnús Már Ellertsson 2, Hilmir Kristjánsson 0, Hinrik Guðbjartsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Kjartan Helgi Steinþórsson 0.
Njarðvík: Elvar Már Friðriksson 26/7 stoðsendingar, Logi Gunnarsson 23, Tracy Smith Jr. 16/9 fráköst, Hjörtur Hrafn Einarsson 10, Ólafur Helgi Jónsson 8, Maciej Stanislav Baginski 7/5 fráköst, Ágúst Orrason 5, Ragnar Helgi Friðriksson 0, Magnús Már Traustason 0, Egill Jónasson 0, Brynjar Þór Guðnason 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Leifur S. Garðarsson, Jón Bender
Viðureign: 3-2 fyrir Grindavík
Mynd/ [email protected] – Ef við leggjum Jóhanni Árna Ólafssyni orð í munn gæti hann hafa verið að segja: „Já veistu, þetta var bara skruggugott!“