Eins og Karfan.is greindi frá í gær samdi Björn Kristjánsson við meistaraflokk KR um að leika aftur með liðinu eftir ársveru hjá Njarðvík.
Björn kom til Njarðvíkur fyrir síðasta tímabil frá KR og var í gríðarlega stóru hlutverki hjá þeim grænklæddu. Hann var með 13,1 stig, 4,7 fráköst og 3,7 stoðsendingar að meðaltali í leik í vetur en Njarðvík olli nokkrum vonbrigðum í vetur og endaði í níunda sæti Dominos deildar karla.
Karfan.is náði tali af Birni í gær eftir að KR hafði tilkynnt um félagaskiptin. Hann sagði það vera spennandi að koma aftur „heim“ og vinna fleiri titla.
„Maður er kominn með smá KR hjarta, hef spilað þar lengst af og tekið þátt í að vinna nokkra titla. Þannig það heillaði að koma "heim" þegar þeir höfðu samband. Ég vill spila fyrir KR og taka þátt í að bæta við fleiri titlum og einnig verður gaman að taka þátt í evropukeppni.“ sagði Björn um ástæðuna fyrir því að hann samdi aftur við KR.
Kristófer Acox samdi einnig við KR í gær en hann og Björn eru góðir vinir. Spilaði það eitthvað inní ákvörðun Björns? „Auðvitað spilaði það aðeins inní að Kristo verði áfram í KR allavega eitt ár í viðbót og verður gaman að geta spilað með honum áður en hann fer út aftur en það var samt ekki megin ástæðan.“
„Að lokum vill ég þakka Njarðvíkingum fyrir veturinn, topp klúbbur. Frábært fólk sem starfar í og í kringum félagið.“ sagði Björn svo að lokum.