Minnesota Lynx lagði LA Sparks og Connecticut Sun unnu Indiana Fever í sínum fyrsta leik í undanúrslitum WNBA. Þau lið sem eru fyrst að vinna tvo leiki tryggja sér farseðilinn í úrslitin.
Lynx 94 – Sparks 77
Á fimmtudaginn mættust Lynx og Sparks í Minnesota þar sem Lynx lögðu gesti sína nokkuð auðveldlega. Eftir jafnan fyrsta leikhluta, 16-15, stungu Lynx gesti sína af í öðrum leikhluta og unnu hann 32-16. Staðan í hálfleik var því 48-31 Lynx í vil. Heimakonur héldu síðan áfram að auka muninn í þriðja leikhluta og voru komnar með allt að 22 stiga forystu á tíma, 61-39. Sparks neituðu þó að gefast upp og náðu að minnka muninn niður í 10 stig um miðjan fjórða leikhluta, 71-61. Við það vöknuðu Lynx aftur með Maya Moore í fararbroddi og luku leiknum með 17 stigum, 94-77.
Liðin mætast svo aftur á sunnudag í LA þar sem Lynx geta með sigri slegið út Sparks en ef Sparks vinna þá munu þau mætast aftur á miðvikudaginn í Minnesota.
Stigahæstu leikmenn Lynx:
Maya Moore 20 stig/5 fráköst/5 stoðsendingar, Seimone Augustus 16 stig/6 fráköst/7 stoðsendingar, Rebekkah Brunson 12 stig/10 fráköst og Lindsay Whalen 12 stig.
Stigahæstu leikmenn Sparks:
Candace Parker 25 stig/11 fráköst/4 stoðsendingar, Alana Beard 16 stig og Kristi Toliver 12 stig.
Sun 76 – Fever 64
Í gær mættust síðan Sun og Fever í Connecticut þar sem MVP seinustu tveggja ára mættust, Tamika Catchings hjá Fever (2011) og Tina Charles hjá Sun (2012). Fever byrjaði leikinn betur en Sun vann sig inn í leikinn hægt og rólega og voru liðin jöfn að stigum, 30-30, þegar flautað var til hálfleiks. Sun hélt áfram uppteknum hætti þar sem þær komust yfir fljótlega í leikhlutanum og juku forystuna síðan hægt og rólega og unnu að lokum 12 stiga sigur.
Liðin mætast aftur á mánudaginn í Indiana í leik 2, þar sem Fever verða annað hvort slegnar út eða þær geta tryggt sér einn leik til viðbótar.
Stigahæstu leikmenn Sun:
Tina Charles 18 stig/15 fráköst, Kara Lawson 16 stig, Tan White (alvöru nafn) 13 stig af bekknum og Asjha Jones 11 stig.
Stigahæstu leikmenn Fever:
Katie Douglas 27 stig, Erlana Larkins 9 stig/8 fráköst, Tammy Sutton-Brown 8 stig og Tamika Catchings 7 stig/9 fráköst/5 stoðsendingar.