Ísland tapaði nokkuð stórt gegn Serbíu í leik um 5-8 sæti A-deildar Evrópumóts U20 landsliða. Ísland fór enn og aftur illa af stað í leiknum og gekk illa að koma sér aftur inní leikinn.
Leikmenn sem höfðu leikið færri mínútur á mótinu hingað til fengu tækifæri í seinni hálfleik og börðust hetjulega en það dugði ekki til og hafði Serbía 89-71 sigur á Íslandi. Tölfræði leiksins má finna hér.
Ísland mætir því Þýskalandi á morgun í leik um 7 sæti mótsins en sá leikur hefst klukkan 13:30 að íslenskum tíma.
Karfan.is velur Lykilmenn hvers leiks Íslands á evrópumótinu í boði Lykils. Lykill leiksins í tapinu gegn Serbíu er Grindvíkingurinn Ingvi Þór Guðmundsson.
Ingvi Þór Guðmundssson leikmaður Íslands kom inn af bekknum og var einn af fáum leikmönnum Íslands sem sýndu þor og baráttu í erfiðum leik. Hann tók erfið skot og djöflaðist allan leikinn í sterkum bakvörðum Serbíu. Hann endaði einnig með 11 stig, 3 fráköst, 5 stoðsednginar og 63% skotnýtingu fyrir innan þriggja stiga línuna.
Auk hans var Tryggvi Snær Hlinason gríðarlega öflugur með 22 stig, 9 fráköst og 5 varða bolta. Þess má geta að þetta er eini leikur Tryggva á mótinu þar sem hann er ekki með tvöfalda tvennu en eitt frákast vantar uppá það. Einnig voru Sæþór Elmar Kristjánsson og Eyjólfur Ásberg Halldórsson öflugir af bekknum og voru báðir með níu stig.
Nánari umfjöllun um leik dagsins má finna hér.