spot_img
HomeFréttirLoksins Stjörnusigur gegn Valsmönnum!

Loksins Stjörnusigur gegn Valsmönnum!

Það var endurtekið efni, ef svo má segja, að Hlíðarenda í kvöld er heimamenn fengu Stjörnumenn aftur í heimsókn. Síðastliðinn sunnudag höfðu Valsmenn betur og urðu meistarar meistaranna en í kvöld voru 2 stig í boði í fyrstu umferð deildarkeppninnar. Verða endurtekin úrslit í kvöld eða munu Garðbæingar loksins hafa sigur gegn Valsmönnum og taka stigin tvö með sér í bláa bæinn fagra?

Kúlan: ,,Það þarf tæplega spádómsséní eins og mig til að sjá þetta fyrir! Stjarnan hlýtur að drattast til að vinna þennan nokkuð örugglega, 78-89“. Sagði Kúlan…sem hefur reyndar ekki hitt á það síðan einhvern tímann snemma á síðasta tímabili…

Byrjunarlið

Valur: Kristó, Pablo, Hjálmar, Booker, Pavlovic

Stjarnan: Jucikas, Friðrik, Hinn þriðji, Darbo, Addú

Gangur leiksins

Það var vissulega endurtekið efni í byrjun leiks þar sem Hjálmar byrjaði aftur af krafti. Nautið Jucika svaraði fyrir gestina og eftir fjögurra mínútna leik tók Valur leikhlé í stöðunni 5-12. Það var greinilega gott leikhlé því Valsarar tóku á 12-0 sprett og staðan allt í einu 17-12. Gestirnir náðu að stöðva blæðinguna og allt í járnum eftir einn, 21-19. Hjálmar setti 7 stig í leikhlutanum en Darbo þrjá þrista fyrir gestina.

FG-ingurinn snjalli Benóný Svanur hóf annan leikhlutann með því að smella tveimur þristum niður fyrir Valsara og eftir einn í viðbót frá Booker var staðan 30-22. Stjörnumenn svöruðu með góðu 9-0 áhlaupi sem endaði með því að FG-ingurinn snjalli Friðrik Anton kom sínum mönnum yfir, 30-31! Allt var svo í járnum fram að hálfleik en Pablo kom Hlíðarendapiltum 2 yfir rétt fyrir hlé, staðan 43-41. Booker og Benóný fleygðu 7 þristum niður samtals í fyrri hálfleik á meðan að Jucika var langatkvæðamestur fyrir gestina með 17 stig!

Það var jafnt á öllum tölum í þriðja leikhluta og liðin skiptust á forystunni ítrekað. Jucika fékk sína þriðju og fjórðu villu snemma í leikhlutanum, annars vegar sóknarvillu sem undirritaður ætlar að leyfa sér að véfengja verulega. Hinn þriðji tók við keflinu og var áberandi í leikhlutanum, Valsmegin var það einkum Pavlovic sem skilaði stigum fyrir sína menn. Fyrir lokaleikhlutann voru gestirnir komnir með stóru tá á undan og leiddu 58-61.

Lítið hefur verið minnst á Adama Darbo fyrr í umfjölluninni en hann átti mjög góðan leik, mjatlaði niður stig jafnt og þétt allan leikinn, gaf stoðsendingar og hirti fráköst. Hann byrjaði fjórða leikhlutann með þristi og eftir annan slíkan frá FG-ingnum snjalla Kristjáni Fannari leiddu gestirnir 60-68. Pablo og Booker svöruðu fyrir heimamenn en þunnskipaðir Valsarar voru líkast til orðnir svolítið fótalúnir þegar þarna var komið við sögu. Það má svo kalla vendipunkt í leiknum þegar Kristó lenti í árekstri við stærra naut en sjálfan sig, Jucika að nafni og kunni ekki að meta það – tók reiði sína út á einum af dómurum leiksins og var umsvifalaust sendur í bað. Þá voru 3 mínútur eftir og enn þriggja körfu munur, 70-77. Stjörnumenn hægðu svolítið á leiknum í kjölfarið og Hinn þriðji var mikið í knattþrautum út á miðjum velli, kannski full mikið, en þrátt fyrir vilja og baráttu heimamanna var einfaldlega tómt á tankinum. Stjörnumenn sigldu sigrinum heim nokkuð örugglega, lokatölur 76-84 og loksins Stjörnusigur gegn Val!

Menn leiksins

Adama Darbo og Jucika spiluðu manna best í kvöld. Darbo setti 18 stig, gaf 6 stoðsendingar og tók 4 fráköst, Jucika var með 24 stig og 5 fráköst. Gestirnir fengu til viðbótar gott framlag úr ýmsum áttum, bæði frá ungum mönnum og reyndum jálkum liðsins.

Pavlovic var atkvæðamestur Valsmanna með 21 stig og 5 fráköst, Booker kom þar á eftir með 17 stig í fáum skotum.

Kjarninn

Það var mun betri bragur á Stjörnuliðinu í kvöld en á sunnudag. Það er sama hvert er litið, vörnin var öllu þéttari, fleiri lögðu lóð á vogarskálarnir og skotin rötuðu frekar rétta leið. Í snörpu viðtali við Arnar Guðjóns eftir leik urðum við sammála um að Stjörnuliðið þarf svolítinn tíma því mikilvægur hluti liðsins samanstendur af allnokkrum ungum leikmönnum sem eru flestir að stíga sín fyrstu skref sem alvöru leikmenn í efstu deild. Með þeim eru svo  nokkrir eldri og mun reyndari jálkar ásamt þremur öflugum erlendum atvinnumönnum. Skemmtileg blanda og spennandi að sjá hvað úr henni verður í vetur.

Valsmenn þurfa auðvitað ekki að örvænta þrátt fyrir ósigur í kvöld. Leikmenn stóðu sig stórvel og voru inn í leiknum nánast allan tímann, kannski þar til Kristó fór í bað. Liðið er þunnskipað en eiga Kára, Benza, Ástþór og bandarískan leikmann inni. Það er nánast heilt öflugt lið – ekki amaleg innistæða það!

Athyglisverðir punktar:

  • Daði Lár Jónsson birtist eins og skrattinn úr sauðaleggnum á bekknum hjá Val á sunnudag og skilaði svo góðum 15 mínútum á parketinu í kvöld. Hann skilaði fínu framlagi og gaman að sjá hann aftur í búning.
  • Það mætti halda að það hafi verið FG-reunion að Hlíðarenda í kvöld en í Valsliðinu voru tveir fyrrum FG-ingar. Minna kemur á óvart að Stjörnumegin voru þeir a.m.k. þrír talsins.
  • Samanlagt skoruðu FG-ingar 29 stig í leik kvöldsins. Sá sem hefur sennilega skorað mest þeirra í úrvalsdeild í heildina, Tómas Þórður, fann þó ekki körfuna að þessu sinni.
  • Kúlan er rúllandi ánægð að leik loknum og hitti loksins á það…var meira að segja nálægt lokatölunum!

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -