spot_img
HomeFréttirLok, lok og læs og allt í stáli – Valsmenn verða meistarar á...

Lok, lok og læs og allt í stáli – Valsmenn verða meistarar á þessu ári

Það var komið að leik þrjú í úrslitum Subway-deildarinnar að Hlíðarenda. Grindvíkingar jöfnuðu seríuna í 1-1 í Smáranum á mánudagskvöldið í frábærum leik. Sigur Grindvíkinga var kannski ekki beint sannfærandi en það skiptir kannski engu máli. Nú er bara þriðji í stríði milli liðanna og grípa þarf til yfirnáttúrulegra meðala til að rýna inn í framtíðina… 

Kúlan:

,,Muniði eftir skrímslinu rauðleita? Það verður með fullri meðvitund í kvöld. 87-73 öruggur sigur Vals þó gestirnir sprikli fram eftir öllu.“

Byrjunarlið

Valur: Tamulis, Kiddi, Aron, Badmus, Kristó

Grindavík: Basile, Breki, Kane, Óli, Mortensen

Gangur leiksins

Heimamenn settu fyrstu 6 stigin á meðan gestirnir töpuðu boltanum klaufalega í fyrstu tveimur sóknunum. Valur Orri kom inn á í stöðunni 10-3 sem stórbætti leik gestanna og minnkaði hann muninn í 14-13 með sínum öðrum þristi í leiknum. Valsarar héngu þó áfram á naumu forskoti og stóðu leikar 21-19 eftir einn.

Basile hóf annan leikhlutann á því að jafna leika í 21-21 og fjórum mínútum síðar henti kappinn í þrist og kom Grindjánum í fyrsta skiptið yfir í leiknum 26-28. Ekki svo mörgum stigum síðar en allnokkrum mínútum voru gestirnir komnir 5 yfir eftir stolinn bolta og iðnaðartroð frá Kane og setti stöðuna í 32-37. Þarna voru tæpar 3 eftir af leikhlutanum og Finnur blés til leikhlés. Þau vilja gjarnan gera sitt fyrir Valsara og að þessu sinni héldu heimamenn hreinu ef svo má segja fram að hálfleik! Framgangan var ekki alveg jafn glæsileg á hinum endanum en 5 stig bættust þó við á töfluna og allt hnífjafnt í pásunni, 37-37. Varnarleikur beggja liða alveg til fyrirmyndar og kannski í takt við það var skotnýting liðanna herfileg. Ekki síst hjá yfirtöffara síðasta leiks en hann var með 4 stig – 1-11 í skotum!

Það var ekkert sérstaklega mikið að frétta fyrstu mínúturnar í seinni hálfleik. Þetta var svolítið eins og fótbolti, mínúturnar liðu og maður fylgist með liðunum skora ekki. Um miðjan leikhlutann stóðu leikar 45-43, í það minnsta jafn leikur og spennandi síðustu 15 mínútur framundan…eða ekki!! Tamulis hóf leika má segja í seinni með að sökkva þristi, Monteiro bætti öðrum við skömmu síðar og Kári með einn til viðbótar. Þá voru enn 3:12 eftir af þriðja, staðan allt í einu orðin 56-43 og Jóhann tók heldur betur tímabært leikhlé. Það breytti engu, staðan 64-48 í leikhlutaskiptunum og strax mikill vonleysisbragur yfir leikmönnum gestanna. Benda má á að þriðji leikhluti fór 27-11!

Grindvíkingar gáfu sínu fólki og hlutlausum áhorfendum falsvon um spennandi leik með því að setja fyrstu 5 stig fjórða leikhluta. Aron Booker svaraði því „áhlaupi“ ef áhlaup skyldi kalla með þristi og það var eins og það væri bara nóg. Gestirnir virtust einfaldlega ekki hafa trú á því að geta skorað- lok, lok og læs og allt í stáli. Kiddi Páls setti þristarúsínu í endann á þessari pylsu þegar rúmar 5 mínútur voru eftir af leiknum, 20 stiga munur og staðan 74-54. Fáir hafa mikinn áhuga á ruslamínútum í úrslitum en svo sem ekki annað að gera þegar úrslit eru ráðin. Ekki var mikið skorað á ruslamínútunum frekar en fyrr í leiknum – lokatölur 80-62 í afar fagmannlegum og öruggum Valssigri!

Menn leiksins

Frank Aron Booker setti 20 stig, tók 7 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Hann barðist af hörku eins og vanalega, frábær leikmaður! Ekki í fyrsta sinn verður að taka fram að heildarframmistaða Valsliðsins var frábær, byrjunarliðið allt setti 11+ stig að þessu sinni og varnarleikurinn upp á 10,5!

Basile setti 19 stig fyrir gestina en aðrir komust vart úr sporunum.

Kjarninn

Þegar litið var upp til himins eftir leik var nóg af skýjum. Ekki gat undirritaður séð neina stafi, rúnir eða tákn skorin í þau. Miðað við þennan leik og ef við bætum við mjög ósannfærandi sigri Grindvíkinga í leik 2 er nákvæmlega ekkert sem bendir til annars en að Valsmenn klári dæmið í Smáranum á sunnudaginn.

Fyrir Grindvíkinga er aðeins eitt sem gæti fært þeim von. Það er sú staðreynd að yfirtöffarinn Kane var gersamlega úti á túni í kvöld! Hann var 2-18 í skotum, 0-13 í þristum!! Fleiri áttu vissulega afleitan leik í kvöld en Kane setti 74 stig í fyrstu 2 leikjunum, 8 í kvöld. Með öðrum orðum – Grindvíkingar geta varla annað en gert betur í fjórða leiknum.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -