spot_img
HomeNeðri deildir1. deild karlaLiðssigur í liðsíþrótt

Liðssigur í liðsíþrótt

Körfubolti er liðsíþrótt. 10-12 leikmenn mynda lið, 5 þeirra taka þátt í leiknum hverju sinni og til að halda ákefð og frískleika í leik liðanna skiptast leikmennirnir á að spila leikinn. Leikmenn geta farið af velli um stundarsakir og kastað mæðinni en komið svo aftur inn á völlinn endurnærðir og fullir orku. Hvers vegna þjálfarar í körfubolta halda sömu leikmönnunum inn á vellinum í langan tíma hefur undirritaður aldrei skilið því örþreyttir leikmenn hafa litla orku og þeim verður oftar á í messunni en annars. Klókir þjálfarar hafa hvílt þá leikmenn sem þeir treysta best fyrir lokakafla leikjanna. Hrunamenn hefðu unnið Skallagrím í kvöld hefði Konrad Tota þjálfari þeirra dreift álaginu betur á milli leikmanna liðsins en hann gerði. Skallagrímur vann 7 stiga sigur á Hrunamönnum á Flúðum, 79-86.

https://www.karfan.is/2023/01/urslit-kvoldsins-i-fyrstu-deildinni-64/

Eftir góða byrjun heimamanna í seinni hálfleik breyttist leikurinn fljótlega úr þokkalegri skemmtun í hrútleiðinlega einkasýningu Ahmads Gilbert sem vildi sýna ákveðnum áhorfanda sem kom frá Selfossi sínar bestu hliðar eftir að hafa valdið honum vonbrigðum í gærkvöld í leik með liðinu sem áhorfandinn þjálfar í Garðabæ. Ahmad hélt meira og minna á boltanum í seinni hálfleik og gaf hann sjaldan frá sér, sem hefði verið í góðu lagi hefði hann hitt skotunum sem hann skaut á körfuna, en það gerði hann ekki oft, 2/14 í þriggja stiga skotum og 7/13 í tveggja stiga skotum. Ahmad sat aðeins 4 mínútur á bekknum og það var bara af því hann kom sér í villuvandræði í seinni hálfleik. Hann var örmagna á vellinum og hefði haft svo gott af því að hvíla sig meira meðan á leiknum stóð. Hann kemur ekki í toppstandi úr jólafríinu í Ameríku! Ahmad var samt framlagshár, tók t.a.m. mörg fráköst. Svona einaframtök á körfuboltavelli geta verið skemmtileg og árangursrík annað slagið en svona sýning er þjálfaranum til minnkunnar. Leikmaður sem ætlar að gera allt einn og sjálfur á ekkert erindi á völlinn og þjálfarinn ætti að gera honum það ljóst og taka hann af velli um stund og leyfa honum átta sig á hlutverki sínu. Liðsmenn Hrunamanna eru ekki að leggja á sig að æfa körfubolta, hlaupa og lyfta lóðum allt árið um kring til þess eins að fá að horfa á Ahmad Gilbert drippla bolta í návígi.

Eyþór Orri fyrirliði Hrunamanna er í fínu formi en hann getur ekki spilað heilan leik án þess að hvílast. Eyþór stillir upp sóknum Hrunamanna, ber boltann upp og spilar auk þess hörkuvörn, – þetta allt útheimtir mikla orku. Skotnýting fyrirliðans var 1/10 úr opnum þriggja stiga skotum. Það er borðleggjandi að maðurinn þurfti á hvíld að halda. Gögnin ljúga ekki. Eyþór er annars góður skotmaður. Sam Burt var í stöðugum slagsmálum undir körfunni. Nýting hans var ágæt þegar litið er á tölurnar hans en þegar tillit er tekið til þess að skotin sem hann setti ekki niður voru sniðskot undir körfunni gefur það vísbendingu um að lítið hafi verið eftir á tankinum! Sammi spilaði rúmar 37 mínútur – allan tímann á fullu gasi í hringiðu baráttunnar undir körfunni.

Á meðan sama 5 manna liðið var við það að örmagnast á vellinum sátu á bekknum Hringur Karlsson sem hafði í einni tæpri fimm mínútna innkomu í 2. leikhluta leikið flotta vörn, varið skot, skorað úr eina skotinu sem hann fékk færi til að skjóta, gefið stoðsendingu og fengið villu á hættulegasta leikmann Skallagríms; Friðrik Heiðar Vignisson sem hafði leikið frábæra vörn í 16 mínútur, skorað tvær 3ja stiga körfur, stolið þremur boltum og tekið mikilvæg fráköst. Hringur og Friðrik voru einu leikmenn Hrunamanna í plús í +/- tölfræðiþættinum. Óðinn Freyr Árnason sat líka sem fastast á bekknum í seinni hálfleiknum. Hann hafði á 13 mínútum leiknum tekið mikilvæg fráköst, átt 3 stoðsendingar og skorað glæsilega körfu eftir sóknarfrákast. Þá var nýr leikmaður, lánsmaðurinn Arnór Bjarki Eyþórsson sem hefur setið á tréverkinu í Þorlákshöfn það sem af er leiktíðar, að leika fyrsta leikinn fyrir Hrunamenn. Arnór Bjarki kom aðeins einu sinni inn á völlinn. Innkoman byrjaði svo sem ekkert  sérstaklega vel, en þegar hann var í þann veginn að vinna sig í takt við leikinn var hann tekinn af velli og kom aldrei aftur við sögu. Þá lék Þorkell Jónsson síðustu mínútur fyrri hálfleiksins og stóð sig engu síður en hver annar.

Nóg um Hrunamenn.  Ágætt flæði var í leik Skallagríms. Þar er greinileg samstaða innan liðsins. Leikmenn treysta hver öðrum og vita nákvæmlega hvað þeir eiga að gera á vellinum. Þjálfarinn ungi, Atli Aðalsteinsson hefur góða stjórn á liði sínu og nær því besta úr leikmönnunum. Bræðurnir Björgvin Hafþór og Bergþór Ægir léku ágætlega, Davíð Kristjánsson átti góðan leik, einkum í seinni hálfleik og aðrir fá að blómstra á sínum styrkleikum fá aðstoð liðsfélaganna þar sem hennar þarf við. Bestur í liði Skallagríms er Keith Jordan Jr. Hann átti mjög virkilega góðan leik. Skallarnir þurftu að bregðast við svæðisvörn Hrunamanna sem kom og fór í leiknum. Fyrst leystu þeir hana vel, svo kom kafli sem þeir áttu í vandræðum gegn henni og hittu illa, en með samstöðunni og frískum fótum höfðu þeir sigur gen örþreyttum heimamönnunum, – liðssigur í liðsíþróttaleik.  

Tölfræði leiks

Myndasafn (Birgitte Brugger)

Fréttir
- Auglýsing -