spot_img
HomeFréttirLeikir kvöldsins: Heil umferð í IEX deild kvenna

Leikir kvöldsins: Heil umferð í IEX deild kvenna

 
Heil umferð fer fram í Iceland Express deild kvenna í kvöld þar sem allir leikirnir hefjast kl. 19:15. Suðurnesjarimma verður í Toyotahöllinni þegar Keflavík tekur á móti Grindavík og þá freista Njarðvíkurkonur þess í annað sinn að leggja Val í Vodafonehöllinni en síðast þegar liðin mættust í Reykjavík þurfti að framlengja. 
Hamar tekur á móti KR í Hveragerði en KR trónir á toppi A-riðils með 28 stig. Vesturbæingar töpuðu sínum fyrsta deildarleik í síðustu umferð þegar þær lágu gegn Keflavík sem var annar tapleikur KR á þessu tímabili en báðir hafa þeir komið á heimavelli! Hamar fékk skell í Grindavík í síðustu umferð svo í Hveragerði mætast lið sem bæði eru með tap á bakinu frá síðustu viðureignum og ætti því að gefa góð fyrirheit fyrir kvöldið í Hveragerði. Leikurinn verður svo í beinni á www.sporttv.is
 
Grindvíkingar mæta í heimsókn til Keflavíkur í kvöld en Grindavík hefur 22 stig í 2. sæti deildarinnar og bættu nýverið við sig leikstjórnandanum Joönnu Skiba sem áður hefur leikið í gulu. Keflvíkingar eru á fljúgandi siglingu um þessar mundir, komnar í bikarúrslit og nýbúnar að leggja Hamar heima og KR úti svo það má gera ráð fyrir góðri grannaglímu í Keflavík í kvöld.
 
Í Vodafonehöllinni mætast Valur og Njarðvík en þegar liðin mættust þar síðast þurfti að framlengja þar sem Valskonur höfðu nauman sigur. Sem stendur eru Njarðvíkingar í 2. sæti B-riðils með 10 stig en Valskonur sitja á botni deildarinnar með 4 stig en hafa þó bætt við sig sterkum leikmanni í Dranadiu Roc.
 
Íslandsmeistarar Hauka mæta svo í Hólminn og leika gegn Snæfell en Haukar eru á toppi B-riðils með 14 stig en Hólmarar hafa 6 stig í 3. sæti.
 
Þá eru tveir leikir á dagskrá í 1. deild kvenna þar sem Laugdælir fá Stjörnuna í heimsókn kl. 19:45 og Grindavík b tekur á móti toppliði Fjölnis kl. 20:15 í Röstinni í Grindavík.
 
Einn leikur er í 2. deild karla en þar mætast Hekla og Laugdælir kl. 20:00 á Hellu.
 
Fréttir
- Auglýsing -