11:36
{mosimage}
(Ísak og Stólarnir myndu væntanlega ekki slá hendinni á móti sigri í kvöld)
Í mörg horn er að líta í kvöld þegar 21. umferð lýkur í Iceland Express deild karla en þá fara einnig fram þrír leikir í 1. deild karla og hefjast allar viðureignir kvöldsins kl. 19:15 nema leikur Vals og Hamars sem hefst kl. 20:00 í Vodafonehöllinni að Hlíðarenda.
Tindastóll tekur á móti Keflavík í Síkinu, Skallagrímur fær KR í heimsókn og Grindavík tekur á móti FSU. Til þess að Grindavík verði deildarmeistari þarf KR að tapa í kvöld gegn Skallagrím og Þór í síðustu umferðinni og myndu eflaust margir líkja þeirri niðurstöðu við náttúruhamfarir og því nokkuð óhætt að segja að Vesturbæingar séu orðnir deildarmeistarar, allavega komnir með aðra höndina á deildarmeistaratitilinn.
Keflavík á í harðri baráttu við Njarðvík um 4. sæti deildarinnar og með sigri gegn Stólunum í kvöld komast Keflvíkingar aftur í 4. sætið en Njarðvíkingar hafa betur í innbyrðisviðureignum liðanna. Eins og sakir standa eru Tindastólsmenn í 9. sæti deildarinnar og ná því ekki inn í úrslitakeppnina, sigur hjá Stólunum í kvöld myndi jafna Blika að stigum en þessi lið mætast í síðustu umferðinni og þar er von á miklum slag.
Grindvíkingar virðast nokkuð fastir í 2. sæti deildarinnar og hafa ekki að jafn miklu að keppa og FSu sem hefur 14 stig 10. sæti deildarinnar. Þar sem Þór lá gegn ÍR í gærkvöldi og Þór mætir KR í síðustu umferðinni hefur staða FSu vænkast til muna.
Í 1. deild karla mætast Þór Þorlákshöfn og Fjölnir en þessi tvö lið berjast hart um síðasta sætið í úrslitakeppni deildarinnar. Vinni Fjölnir sigur í kvöld eru tryggja þeir sig inn í úrslitakeppnina og skilja Þórsara eftir.
Jafnt er á stigum í innbyrðisviðureignum Hauka og Hamars og því dugir Hamarsmönnum aðeins einn sigur í næstu tveimur leikjum til að tryggja sér deildarmeistaratitilinn en þeir mæta Val í Vodafonehöllinni í kvöld og í síðustu umferðinni leikur Hamar gegn Þór Þorlákshöfn í grannaslag í Blómabænum.
Hafnfirðingar halda Vestur á firði í dag og mæta KFÍ og ef Fjölnir vinnur Þór Þorlákshöfn í kvöld vænkast hagur KFÍ um að vera inni í úrslitakeppninni til muna. Sigur hjá KFÍ myndi síðan endanlega tryggja þá inn en KFÍ mætir síðan Hetti í síðustu umferðinni á Egilsstöðum en Höttur og Laugdælir eru þegar fallnir um deild.