10:26
{mosimage}
(Kristrún og Haukakonur geta í kvöld orðið Íslandsmeistarar í þriðja sinn á fjórum árum)
Deildarmeistarar Hauka geta í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Iceland Express deild kvenna þegar KR og Haukar mætast í sínum fjórða úrslitaleik. Staðan í einvíginu er 2-1 Haukum í vil en takist KR að ná fram sigri í kvöld þarf að bregða til oddaleiks að Ásvöllum. Viðureign KR og Hauka hefst kl. 19:15 í DHL-Höllinni í Vesturbænum í kvöld.
KR vann fyrsta úrslitaleik liðanna 52-61 að Ásvöllum en Haukar komu sterkir til baka og jöfnuðu metin í DHL-Höllinni með 64-68 sigri. Haukar tóku síðan forystuna í einvíginu með 74-65 sigri að Ásvöllum. Það má því gera ráð fyrir hörkuleik í kvöld þar sem KR mun selja sig dýrt.
Með sigri í kvöld geta Haukakonur landað sínum þriðja Íslandsmeistaratitli á aðeins fjórum árum. KR hefur síðan 2003 í tvígang leikið til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn og í bæði skiptin tapað 3-0 fyrir Keflavík. Síðast í fyrra lá KR 3-0 gegn Keflavík en voru þá nýliðar í deildinni en KR-ingar eru engu að síður eitt sigursælasta kvennalið Íslandssögunnar með 13 Íslandsmeistaratitla.
Þá eigast við Fjölnir og Valur í sínum öðrum úrslitaleik um sæti í úrvalsdeild karla á næstu leiktíð en Fjölnir leiðir einvígið 1-0 eftir 10 stiga sigur í Vodafonehöllinni á föstudag 78-88. Sigur hjá Fjölnismönnum í kvöld tryggir þeim sæti í úrvalsdeildinni næstu leiktíð.
Fleiri leikir eru á dagskrá í dag þar sem úrslitakeppni 2. deildar karla er í gangi sem og yngriflokkamót. Yfirlit yfir alla leiki dagsins má sjá á leikvarpinu hjá KKÍ – http://kki.is/leikvarp.asp