10:34
{mosimage}
(Magnús Þór mætir með Njarðvíkingum í Toyotahöllina í kvöld)
Nóg verður um að vera í íslenska boltanum í kvöld þar sem fyrsta umferð úrslitakeppninnar í Iceland Express deild kvenna fer af stað og þá lýkur 20. umferð í Iceland Express deild karla þar sem nágrannarnir Keflavík og Njarðvík mætast í enn einni glímunni.
Hamar og Valur ríða á vaðið í úrslitakeppni kvenna en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslitin. Þar sem Hamar lék í A-riðli en Valur í B-riðli eru það Hamarskonur sem eiga heimaleikjaréttinn og því fer fyrsti leikurinn réttilega fram í blómabænum Hveragerði kl. 19:15.
Í Iceland Express deild karla er það viðureign Keflavíkur og Njarðvíkur sem ber hæst enda eru fyrir löngu orðnar frægar viðureignir þessara fornu fjenda. Njarðvíkingar unnu fyrri leik liðanna 77-75 í Ljónagryfjunni en síðan þá hafa Njarðvíkingar bætt við sig tveimur erlendum leikmönnum. Keflvíkingar leika án Þrastar Leós Jóhannssonar sem meiddist fyrir skemmstu og verður væntanlega ekki með Keflvíkingum fyrr en í fyrsta lagi í úrslitakeppninni. Leikurinn hefst kl. 19:15 í Toyotahöllinni í Keflavík.
Í Vesturbænum mætast KR og Tindastóll kl. 19:15 og þar sem Grindavík lá í Stykkishólmi í gærkvöldi er staða KR orðin ansi vænleg og ljóst að nokkuð má ganga á til að sterkt lið KR fari að glutra frá sér deildarmeistaratitlinum úr þessu.
Boðið verður upp á annan grannaslag í kvöld en Keflavík-Njarðvík því þá mætast Breiðablik og Stjarnan í Smáranum í Kópavogi. Leikurinn hefst kl. 19:15 og hér þurfa bæði lið nauðsynlega á stigunum að halda en Blikar þó sýnu meira. Stjarnan hefur 16 stig en Blikar hafa 14 stig. Bikarmeistarar Stjörnunnar hafa tapað síðustu tveimur deildarleikjum eftir að þeir urðu bikarmeistarar og Blikar hafa tapað síðustu þremur deildarleikjum sínum. Saman eru þessi lið með fimm tapleiki í röð á bakinu og má því búast við magnaðri rimmu í Smáranum þar sem annað hvort liðið mun binda enda á taphrinu sína.
Þá eru einni fleiri leikir í kvöld í neðri deildum og yngri flokkum sem sjá má á leikvarpinu hjá KKÍ: http://kki.is/leikvarp.asp