spot_img
HomeFréttirLeikir dagsins: Stórleikur í Toyota-Höllinni og frumraun Örvars

Leikir dagsins: Stórleikur í Toyota-Höllinni og frumraun Örvars

 
Þriðju umferð í Iceland Express deild karla lýkur í kvöld með þremur leikjum sem allir hefjast kl. 19:15. Tveir leikjanna ættu að vera í beinni netútsendingu hjá Fjölni og KFÍ en þeir sem vilja glöggva sig nánar á því geta heimsótt félagssíður liðanna. 
Fjölnir tekur á móti Hamri í Dalhúsum þar sem Örvar Kristjánsson mun stýra liði Fjölnis í fyrsta sinn síðan hann tók við liðinu af Tómasi Holton. Fjölnir er enn án stiga í deildinni en Hamarsmenn lögðu KR í síðustu umferð í Hveragerði.
 
Keflavík fær Stjörnuna í heimsókn en Keflvíkingar hafa leikið tvo fyrstu deildarleiki sína án Valentino´s Maxwell sem hefur verið að glíma við meiðsli og fróðlegt verður að sjá hvort kappinn verði í búning í kvöld. Stjörnumenn lögðu Fjölni í síðustu umferð en Keflvíkingar lágu í Hólminum.
 
Nýliðar KFÍ fá ÍR í heimsókn en ÍR er enn án stiga eftir tap gegn Njarðvík og Keflavík í tveimur fyrstu umferðunum. KFÍ lagði Tindastól í fyrstu umferðinni og tapaði svo naumlega gegn Grindvíkingum sem er eina taplausa lið deildarinnar um þessar mundir.
 
Kl. 18:30 mætast svo Haukar b og Valur í 1. deild kvenna að Ásvöllum, Álftanes fær Heklu í heimsókn kl. 19:45 í 2. deild karla og í unglingaflokki kvenna mætast Njarðvík og KR/Fjölnir í Ljónagryfjunni kl. 20:00.
 
Ljósmynd/ Karl West: Örvar fær eldskírn sína í kvöld sem þjálfari í úrvalsdeild karla.
 
Fréttir
- Auglýsing -