spot_img
HomeFréttirLaugdælir lögðu Leikni: Taka 2

Laugdælir lögðu Leikni: Taka 2

 
Í gærkvöldi höfðust Laugdælir og Leiknir R. við í annað skiptið á innan við viku. Laugdælir höfðu unnið Breiðhyltingana í Powerade bikarnum á föstudaginn síðastliðinn og náðu svipaðari niðurstöðu í deildarleiknum í gær, 95-79.
Laugdælir byrjuðu leikinn á sérkennilegan hátt og skoruðu fyrstu 12 stigin sín úr þriggja stiga skotum frá fjórum mismunandi leikmönnum. Leiknismenn héldu þó vel í við þá í fyrsta með aragrúa af sniðskotum og stökkskotum fyrir innan þriggja stiga línu. Laugdælir sigu þó hægt og rólega fram úr Leikni. Á síðustu 4 mínútum leikhlutans skoruðu heimamenn 15 stig á móti 1 hjá gestunum. Við upphaf annars leikhluta var staðan því 27-18 fyrir Laugdæli.
 
Í öðrum leikhluta hristu Leiknismenn af sér slenið og náðu að minnka muninn í 5 stig áður en Laugdælir settu aftur í gírinn og juku muninn á ný. Gestirnir virtust ekki getað passað nægilega vel upp á boltann sem sýndi sig í að þeir voru komnir með 18 tapaða bolta í fyrri hálfleik og 31 samtals í öllum leiknum. Staðan í hálfleik; 45-32 fyrir
heimamönnum.
 
Leiknir komu ákveðnir úr búningsklefanum eftir hálfleik og byrjuðu á að skora fyrstu 6 stig leikhlutans. Laugdælir voru þó fljótir að taka við sér og skoruðu 6 stig á móti. Liðin skiptust eftir þetta á körfum og munurinn hélst að mestu óbreyttur. Eilítill rimma í lokin hjá heimamönnum jók þó muninn í 15 stig við lok þriðja.
 
Í stöðunni 70-55 við upphaf síðasta leikhlutans sást hvergi þreytumerki á Laugdælum og á rúmum 5 mínútum juku þeir muninn í 25 stig með nokkrum vel völdum skotum og varnarfléttum. Leiknismenn náðu aðeins að klóra í bakkann eftir það en munurinn var orðinn of mikill og Laugdælir því með tvo sigra á móti sama liði á innan við viku.
 
Munurinn á liðunum í þessum leik lá í töpuðu boltunum og þriggja stiga skotunum. Laugdælir voru með 15 tapaða bolta á móti 31 hjá Leikni (26 þeirra enduðu sem stolnir boltar hjá Laugdælum) og hittu 16 af 37 í þriggjum (43% nýting) á móti 1 af 7 hjá Leikni (17% nýting).
 
Laugdælir:Jón Hrafn Baldvinsson 25/8 fráköst/9 stolnir, Bjarni Bjarnason 18/12 stoðsendingar/6 stolnir, Pétur Már Sigurðsson 17 stig, Anton Kári Kárason 14, Sigurður Orri Hafþórsson 11, Ragnar Ingi Guðmundsson 5, Arnór Yngvi Hermundarson 3, Helgi Hrafn Ólafsson 2/5 fráköst.
 
Leiknir R.: Helgi Davíð Ingason 19/9 fráköst, Darrell Lewis 15/5 fráköst, Hallgrímur Tómasson 11/8 fráköst, Þórður Björn Ágústsson 9, Kristinn Magnússon 7, Úlfar Kári Guðmundsson 6, Einar Þór Einarsson 5/7 fráköst, Eiríkur Örn Guðmundsson 4, Einar Hansberg Árnason 3/6 stoðsendingar.
 
Umfjöllun: Helgi Ólafsson
 
Ljósmynd/ Úr safni: Frá leik Laugdæla og Skallagríms fyrr á tímabilinu
Fréttir
- Auglýsing -