Laugdælir náðu að landa sigri á Leiknismönnum, 80-73, í Powerade-bikarnum síðastliðið föstudagskvöld. Þó að þeir hafi komist yfir Leikni snemma og haldið forystunni allann leikinn var sigurinn ekki viss fyrr en við leikslok þar sem að leikmenn Leiknis héldu allann tímann í við þá.
Fyrstu mínúturnar einkenndust af slæmri vörn hjá báðum liðum sem leiddi til auðveldra sniðskota á báða boga. Bæði lið gerðu mörg mistök framan af og skiptust á körfum allan fyrsta leikhlutann. Laugdælir fóru þó með 6 stiga forystu inn í annan leikhlutann, 26-20.
Í öðrum leikhluta fóru Laugdælir betur í gang og fóru að setja fleiri skot og komust mest í 12 stiga forystu. Þegar ca. 3 mínútur voru eftir af fyrri hálfleik fóru hlutir þó að ganga upp hjá Leiknismönnum. Þeir fóru hægt og rólega að saxa á heimamenn og staðan í hálfleik því 44-36.
Leiknir hélt áfram að vinna á forystu Laugdæla og áður en tvær mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var staðan orðin 44-43. Laugdælir tóku þá við sér og náðu að auka muninn á ný. Gestirnir voru hins vegar aldrei langt undan og náðu að halda í við gestgjafana.
Leikurinn hélt svona áfram alveg til leiksloka, Leiknir að sækja á Laugdæli og Laugdælir að halda aftur af þeim þrátt fyrir ógrynni mistaka af þeirra hálfu. Lokastaðan í leiknum varð því 80-73 eins og fyrr greinir.
Bjarni Bjarnason var ótvíræður maður leiksins með 18 stig, 9 fráköst, 5 stoðsendingar og 6 stolna bolta. Þess má geta að þrír dómarar dæmdu þennan leik í stað tveggja eins og hefð er fyrir. Þetta gæti verið undanfari þess að deildar- og bikarleikir verði eftirleiðis dæmdir af þrem dómurum í stað tveggja.
Laugdælir: Bjarni Bjarnason 18/9 fráköst/5 stoðsendingar/6 stuldir, Jón Hrafn Baldvinsson 16, Pétur Már Sigurðsson 15/5 fráköst, Anton Kári Kárason 10/5 fráköst, Sigurður Orri Hafþórsson 8, Arnór Yngvi Hermundarson 7, Helgi Hrafn Ólafsson 5, Haukur Már Ólafsson 1.
Leiknir: Darrell Lewis 19/14 fráköst, Daði Steinn Sigurðsson 15, Hallgrímur Tómasson 10/6 fráköst, Helgi Davíð Ingason 10, Einar Þór Einarsson 6/8 fráköst, Eiríkur Örn Guðmundsson 6, Þórður Björn Ágústsson 4, Sigurður Gíslason 3.
Umfjöllun: Helgi Ólafsson
Ljósmynd/ Úr safni