08:39:53
Portland vann sannfærandi sigur á LA Lakers í nótt þar sem lykilmenn Lakers áttu ekki góðan dag. Blazers tóku strax stjórnina á vellinum og voru með leikinn í sínum höndum allt til enda. Brandon Roy fór fyrir Blazers eins og venjulega, með 27 stig, og Travis Outlaw var með 22. Hjá Lakers var Kobe Bryant með 26 stig og Pau Gasol var með 18 stig og 13 fráköst.
Skugga bar þó á gleðina hjá Portland-mönnum þar sem nýliðinn Rudy Fernandez var borinn af velli á börum eftir að hann fékk slæma byltu þegar Trevor Ariza braut á honum seint í þriðja leikhluta. Ariza fékk reisupassann að launum, en mildi var að leikurinn leystist ekki upp í slagsmál eftir atvikið.
Dwayne Wade sýndi enn einu sinni að ekki verður hægt að líta framhjá honum þegar kemur að því að velja besta leikmanninn eftir leiktíðina. Hann skoraði 48 stig fyrir Miami í sigri í tvíframlengdum leik gegn Chicago, 130-127, en hann skoraði þrjár rosalegar körfur í leiknum. Fyrst skoraði hann flautukörfu frá miðju þegar flautað var til hálfleiks, þá jafnaði hann leikinn í lok venjulegs leiktíma og tryggði þeim svo sigurinn með því að stela boltanum, hlaupa sjálfur fram og setja 3ja stiga körfu á hlaupum um leið og lokaflautið gall.
Þessi ótrúlega frammistaða skyggði á Ben Gordon hjá Chicago, sem skoraði 43 stig og reif sína menn aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta þar sem hann skoraði síðustu 14 stig liðsins í venjulegum leiktíma.
Meðal annarra úrslita í nótt má minnast á sigur Detroit gegn Orlando, en þeir fyrrnefndu hafa haft tak á Orlando í fjöldamörg ár og hefur ekkert breyst í þeim málum þrátt fyrir að Allen Iverson væri enn frá vegna meiðsla og Rasheed Wallace færi af velli í fyrsta leikhluta með kálfameiðsli. Antonio McDyess tók til sinna ráða og var með 13 stig og 18 fráköst í leiknum.
Loks tapaði Minnesota sínum tíunda leik í röð, en ekkert hefur gengið hjá liðinu síðan Al Jefferson meiddist alvarlega, en hann verður frá það sem eftir er tímabilsins.
Hér eru úrslit næturinnar:
New Orleans 79
Atlanta 89
Orlando 94
Detroit 98
Chicago 127
Miami 130
Washington 110
Minnesota 99
Houston 97
Denver 95
LA Lakers 94
Portland 111
ÞJ