LA Lakers gerðu út um allar vangaveltur um hver er með sterkasta liðið í vesturdeild NBA þegar þeir jörðuðu Dallas Mavericks, sem var fyrir leikinn í öðru sæti á eftir Lakers. Lokatölur voru 131-96, en Lakers léku án Ron Artest og Pau Gasol meiddist á læri strax í byrjun leiks og kom ekki meira við sögu.
Þá unnu NY Knicks enn stærri sigur á Indiana Pacers, 132-89, og voru á tímabili með 48 stiga forskot. Knicks virðast vera komnir á beinu brautina eftir áralanga eymd og volæði í Madison Square Garden.
Þá töpuðu LeBron James og félagar í Cleveland Cavaliers, toppliðið í Austurdeildinni, fyrir Charlotte Bobcats, 88-91, en Bobcats eru er annað lið sem er að rétta úr kútnum og gæla nú við að komast í úrslitakeppnina í fyrsta sinn í sögu liðsins.
Önnur úrslit næturinnar: (Tölfræði)
Denver – Philadelphia 105-108
Toronto – San Antonio 91-86