08:02:56
{mosimage}LA Lakers og Cleveland Cavaliers, sigurstranglegustu liðin í NBA, unnu bæði leiki sína í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í nótt, en voru ekki eins sannfærandi og í fyrstu leikjunum. Lakers unnu Utah Jazz, 119-109, og Cleveland vann Detroit, 94-82, en staðan í 2-0 í báðum einvígjunum. Þá jöfnuðu Portland Trail Blazers metin gegn Houston Rockets með sigri, 107-103.
Utah hefur tapað 11 leikjum í röð gegn Lakers í Staples Center en voru inni í leiknum lengi framan af, aðallega vegna frábærrar frammistöðu Deron Williams sem gerði 35 stig og gaf 9 stoðsendingar fyrir Jazz. Kobe Bryant gerði 26 stig fyrir Lakers og Pau Gasol bætti 22 stigum við það.
Cleveland voru í þann mund að jarða Pistons í nótt og LeBron James fór á bekkinn í fjórða leikhluta þar sem hans menn höfðu 29 stiga forskot. Það gufaði hins vegar upp með undraskjótum hætti og James þurfti að reima aftur á sig skóna og draga sína menn í land þegar munurinn var kominn niður í 7 stig og fjórar mínútur eftir.
James lauk leiknum með 29 stig og Mo Williams var með 21. Hjá Detroit var Rip Hamilton með 17 stig.
Brandon Roy átti stórleik fyrir Portland sem jafnaði metin í einvíginu gegn Houston. Hann gerði 42 stig í jöfnum og spennandi leik þar sem Portland sigur framúr undir lokin.
LaMarcus Aldridge var með 27 stig og 12 fráköst fyrir Portland, en Aaron Brooks var stigahæstur Rockets með 23 stig. Von Wafer bætti við 21, en Yao Ming var aðeins með 11 stig í leiknum.
ÞJ